Vilja breyta skattkerfinu

Aðalstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Aðalstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) telur að breyta þurfi skattkerfinu á Íslandi í nýrri skýrslu sem sjóðurinn hefur unnið um Ísland. Meðal annars á tekjuskattsþrepum, virðisaukaskatti og skatti á náttúruauðlindir.

Er meðal annars lagt til að eitt virðisaukaskattsþrep verði tekið upp, lækka hið almenna virðisaukaskattsþrep úr 25% en samkvæmt AGS er virðisaukaskattur hvergi jafn hár og á Íslandi innan OECD. Eins að hækka lægra þrepið sem er nú 14%.

Um skatt á náttúruauðlindir segir meðal annars að helsta keppikefli íslenskra stjórnvalda eigi að vera að afla aukinna verðmæta af notkun vatns- og jarðvarmaorku landsins. Skilvirkni og jafnræði í skattlagningu til náinnar framtíðar sé meðal þess sem hafa beri að leiðarljósi. 

Lagt er til í skýrslunni að fjármagnstekjuskattur verði aflagður og þess í stað verði settur á eignaskattur.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu kemur fram að fyrir réttu ári birtist fyrri skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um endurbætur á íslenska skattkerfinu sem unnin var að beiðni fjármálaráðherra undir yfirskriftinni Improving the Equity and Revenue Productivity of the Icelandic Tax System.

„Í henni var farið yfir tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs og gerð ítarleg grein fyrir kostum og göllum þess, auk þess sem gerðar voru tillögur um breytingar til að auka skilvirkni og til að auka tekjur ríkissjóðs ef þess væri talin þörf. Nokkrar þeirra tillagna hafa þegar verið lögfestar.

Fljótlega eftir útkomu fyrri skýrslu AGS varð ljóst að nauðsyn væri á frekari skoðun og útfærslu á einstökum þáttum hennar, meðal annars í tengslum við vinnu starfshóps um endurskoðun íslenska skattkerfisins. Í ljósi þess óskaði fjármálaráðherra eftir frekari vinnu frá sérfræðingum AGS á grundvelli fyrri skýrslu, jafnframt því að gerð yrði sérstök rannsókn á skattlagning náttúruauðlinda.

Sú vinna fór fram í mars og apríl 2011 í samráði við fjölmarga opinbera aðila, hagsmunasamtök og fræðimenn og liggur nú fyrir ný skýrsla frá AGS undir heitinu Advancing Tax Reform and the Taxation of Natural Resources.

Skýrslan inniheldur yfirgripsmikla og vandaða umfjöllun um einstaka þætti íslenska skattkerfisins ásamt tillögum um umbætur af ýmsu tagi, auk ábendinga um tekjuöflun ef til þyrfti að koma," segir á vef ráðuneytisins. 

 Skýrsla AGS um skatta

Skýrsla AGS

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert