Hugsjónir Jóns verði leiðarljós

Hrafnseyri við Arnarfjörð. Fæðingarstaður Jóns forseta.
Hrafnseyri við Arnarfjörð. Fæðingarstaður Jóns forseta.

„ Þegar dregur til tíðinda um framtíð Íslands væri við hæfi að allir sem ábyrgð bera komi þá á ný til Hrafnseyrar og ræði hér hvert halda skal, taki svo ákvarðanir með hugsjónir Jóns að leiðarljósi, tign og fegurð Arnarfjarðar fyrir augum, hlýði á óminn af röddum fólksins sem gerði hann að frelsishetju.“

Á þessum orðum lauk Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ávarpi sínu á hátíðardagskrá á Hrafnseyri í dag. 

Forseti talaði um áhrif Jóns Sigurðssonar og sagði að saga hans væri „ekki fjarlægur tími heldur hluti af uppeldi okkar og veganesti.“

Ólafur Ragnar fjallaði einnig um að þótt Jón hefði farið ungur til náms hefðu æskuslóðirnar á Hrafnseyri ávallt verið honum ofarlega í huga. 

„Þegar Jón Sigurðsson ritaði Hugvekju til Íslendinga mótaði þessi heimanmundur ásamt lærdómi og reynslu boðskapinn, bjargið sem baráttan byggðist á, áherslur um þjóðarvitund og sjálfstæðisþrá. Þetta voru burðarásar sigranna sem síðar unnust, sumir löngu eftir að Jón var allur, hugsjónir í brjóstum fólksins sem safnaðist til Hrafnseyrar 17. júní 1911 og 1944, leiðarljós í uppbyggingu samfélags sem við hlutum í arf, undirstöður að traustum sessi Íslands í veröldinni; sjálfstæðisþrá og þjóðarvitund.“ 

Ólafur Ragnar vitnaði ennfremur í Hugvekju til Íslendinga og sagði: „Hugvekja Jóns til Íslendinga mótaði þá sjálfstæðissýn sem varð veganesti íslenskra stjórnmála allt til okkar daga, innblásin af þjóðerniskennd sem forstöðunefnd Nýrra félagsrita færði komandi kynslóðum.“

Að lokum sagði Ólafur um Jón:

„Jón var ekki aðeins hinn lærði hugsjónamaður, sem sótti rök í fornar sögur, gömul skjöl og sáttmála, starfaði á vegum félaga sem helguð voru fornfræðum, vísindum og bókmenntum. Hann var líka á vissan hátt fyrsti nútímamaðurinn á vettvangi íslenskra stjórnmála, lýðræðissinni sem vissi að stuðningur fólksins skipti sköpum.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert