Reykvíkingur ársins 2011

Gunnlaugur Sigurðsson með fyrsta laxinn úr Elliðaánum. Gunnlaugur var valinn …
Gunnlaugur Sigurðsson með fyrsta laxinn úr Elliðaánum. Gunnlaugur var valinn Reykvíkingur ársins 2011. mbl.is/Golli

Fréttin uppfærð 7.38

Gunnlaugur Sigurðsson, Reykavíkingur ársins 2011, landaði fyrsta laxinum úr Elliðaánum i morgun. Hann opnaði laxveiðina í Elliðaánum klukkan 7.00 og setti strax í lax í Sjávarfossi.

Laxinn slapp en þá var rennt aftur og tók sami laxinn. Kjartan Þorbjörnsson, Golli, ljósmyndari og veiðimaður, sagði að slitnað hafi úr laxinum í fyrstu tökunni. Þegar hann kom upp var hann með krókinn úr fyrra rennslinu í kjaftinum.

Gunnlaugur beit veiðiuggann af laxinum eins og hefðin krefst. Laxinn var fimm punda hængur.  Jón Gnarr borgarstjóri opnaði ekki árnar eins og venja er að borgarstjóri geri. Hann hjálpaði Gunnlaugi þó við löndunina og hélt á stönginni á meðan veiðimaðurinn kom sér betur fyrir. 

Gunnlaugur var valinn Reykvíkingur ársins 2011 og er 79 ára gamall íbúi við Fellsmúla.

Gunnlaugur hefur búið í fjölbýlishúsi við Fellsmúla 15 í yfir 40 ár, að því er fram kemur í tilkynningu. Hann þykir fyrirmyndar nágranni og hefur haldið sameign og lóðum fjölbýlishúsanna við Fellsmúla 13 og 15 hreinum í áratugi án þess að þiggja greiðslur fyrir auk þess að hreinsa burt illgresi við gangbrautarkanta í nágrenni fjölbýlishúsanna. 

Í ábendingu sem barst frá nágranna Gunnlaugs til fjölda ára segir m.a. „Ég tel mig bera kennsl á mikilvægi hans og hæfni í mannlegum samskiptum almennt og ekki síst því mikilvæga hlutverki að vera partur af heildarsamfélagi sem fjölbýli verður að mótast af. Skilningi, umburðarlyndi og óeigingirni.

Gunnlaugur hefur alla burði til þess að vera í hópi fyrirmyndar Reykvíkinga, sem láta sér annt um umhverfi sitt og stuðla jafnframt að friðsælu sambýli fólks með ólíkar skoðanir og viðhorf eins og gengur og gerist í fjölbýlishúsum borgarinnar.“

Gunnlaugur er fjögurra barna faðir og eru börn hans uppkominn. Hann er fyrrverandi lögreglumaður. Fjölmargar góðar ábendingar bárust að Reykvíkingi ársins 2011. Þriggja manna dómnefnd stóð að valinu en í henni sátu: 
  
Anna Kristinsdóttir Mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar. 
Bjarni Brynjólfsson, Upplýsingastjóri Reykjavíkurborgar. 
Gunnar Ólafsson, lífefnafræðingur og Reykvíkingur, valinn úr þjóðskrá

Gunnlaugur Sigurðsson (t.h.), Reykvíkingur ársins 2011, með Ásgeiri Heiðar leiðsögumanni …
Gunnlaugur Sigurðsson (t.h.), Reykvíkingur ársins 2011, með Ásgeiri Heiðar leiðsögumanni (t.v.) við Sjávarfoss. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert