Biskup biðst afsökunar

Landakotskirkja
Landakotskirkja mbl.is/ÞÖK

Biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, Peter Bürcher, hefur ákveðið að setja á fót óháða rannsóknarnefnd til að rannsaka þær ásakanir sem komið hafa fram um kynferðislegt ofbeldi og áreitni af hálfu vígðra þjóna kirkjunnar og starfsmanna stofnana kirkjunnar, þ. á m. starfsmanna Landakotsskóla fram til ársins 2005.

Sérstaklega verði kappkostað að upplýsa um viðbrögð og starfshætti kaþólsku kirkjunnar í tilefni af slíkum ásökunum, segir í tilkynningu.

Þá biður biskup alla þá afsökunar og fyrirgefningar sem kunni að hafa orðið fyrir kynferðislegum brotum af hálfu presta eða starfsmanna kirkjunnar.

Róbert Spanó fenginn til að aðstoða

„Til ráðgjafar í þessu erfiða máli hefur biskup kallað á Róbert R. Spanó lagaprófessor, en eins og kunnugt er, var hann í forsæti rannsóknarnefndar um sambærileg mál innan þjóðkirkjunnar.

Hefur þess verið farið á leit við Róbert að hann velji fulltrúa í rannsóknarnefndina og setji henni starfsreglur og markmið. Stefnt verði að því að ljúka undirbúningi að stofnun rannsóknarnefndarinnar sem fyrst þannig að hún geti hafið störf eigi síðar en 1. september nk.

Hún skuli skila biskupi skýrslu um störf sín en helstu niðurstöður og tillögur rannsóknarnefndarinnar verði birtar opinberlega. Innanríkisráðherra verður tilkynnt um skipan nefndarinnar og honum kynntar starfsreglur hennar strax og þær liggja fyrir.

Að lokum vil ég, sem biskup kaþólsku kirkjunnar, feta í fótspor Benedikts páfa og biðja alla þá afsökunar og fyrirgefningar sem kunna að hafa orðið fyrir kynferðislegum brotum af hálfu presta eða starfsmanna kirkjunnar," segir í tilkynningu frá  Peter Bürcher.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert