Slæm skilaboð til samfélagsins

Bragi Guðbrandsson.
Bragi Guðbrandsson. mbl.is/Golli

Það sendir slæm skilaboð til samfélagsins ef einstaklingar sem allt bendir til að hafi brotið alvarlega og svívirðilega gegn börnum skuli ekki vera látnir sæta varðhaldi. Þetta segir Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.

Hann tekur undir gagnrýni Björgvins Björgvinssonar, yfirmanns kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, á að barnaníðingur í Vestmannaeyjum hafi ekki verið látinn sæta gæsluvarðhaldi.

Sagði Björgvin að eðlilegt væri að krafist hefði verið gæsluvarðhalds yfir manni sem nauðgaði stjúpdóttur sinni í Vestmannaeyjum í fyrra og hittifyrra. Gagnrýndi hann Ólaf Helga Kjartansson, sýslumann á Selfossi, og sagði að nægir hagsmunir hefðu verið í málinu til að loka brotamanninn inni.

Bragi ítrekar að hann geti ekki fjallað um þetta tiltekna mál en almennt séu það slæm skilaboð að einstaklingur skuli ekki þurfa strax í upphafi máls að sæta varðhaldi á meðan það er kannað með óyggjandi hætti að öðrum börnum standi ekki hætta af honum.

„Það er frumskylda okkar að tryggja öryggi barnanna og það almenna sjónarmið finnst mér alltaf þurfa að vera í fyrirrúmi þegar mál af þessu tagi koma upp. Það er ekkert auðvelt að meta þann þátt málsins án þess að gefa sér til þess nauðsynlegan tíma. Á meðan það er gert eiga börnin að njóta vafans. Viðkomandi ætti að mínu vit að sæta varðhaldi á meðan,“ segir Bragi.

Það segi sig sjálft þegar um sé að ræða mjög alvarleg brot þá verði viðbrögðin að vera í hlutfalli við það af hálfu lögreglu og ákæruvalds.

„Mér sýnist að gæsluvarðhaldskrafa hljóti að vera eðlileg og réttmæt við þær aðstæður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert