Ísland braut á farandverkamönnum

mbl.is/ÞÖK

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) segir í rökstuddum álitum að takmarkanir á rétti farandverkamanna til atvinnuleysibóta á Íslandi og í Noregi séu ólögmætar.

ESA segir að Ísland og Noregur verði að breyta ákvæðum í löggjöf sinni er varði skilyrði fyrir rétti farandlaunþega, sem einungis starfi í stuttan tíma á vinnumarkaði í ríkjunum áður en þeir verði atvinnulausir, til atvinnuleysisbóta.

Þetta er niðurstaða rökstuddra álita Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) sem send voru til Íslands og Noregs í gær.

„Samkvæmt EES-samningnum mega Ísland og Noregur ekki setja það sem skilyrði að farandlaunþegi starfi í tiltekin tíma á vinnumarkaði í ríkinu til að tryggingatímabil í öðrum EES ríkjum verði tekin til greina við ákvörðun um rétt til atvinnuleysisbóta. Samkvæmt norsku löggjöfinni þarf farandlaunþegi að hafa verið í fullu starfi í Noregi í 8 af 12 vikum áður en hann verður atvinnulaus. Á Íslandi gildir sambærileg regla, en þar er þess krafist að farandlaunþegi sé í fullu starfi í einn mánuð á Íslandi áður en hann verður atvinnulaus. Þessi ákvæði hafa þær afleiðingar að farandlaunþega sem er sagt upp störfum á þessum tímabilum fengi ekki atvinnuleysisbætur frá neinu EES ríki,“ segir í áliti ESA.

Þá segir að bæði Ísland og Noregur hafi haldið því fram að ákvæðin séu ætluð til að verjast bótasvikum. Samkvæmt ákvæðum EES-réttar beri hins vegar að takast á við hugsanleg bótasvik í hverju máli fyrir sig. Almenn regla sem komi í veg fyrir að farandlaunþegar fái réttmætar bætur sé ekki í samræmi við ákvæði EES-réttar.

Rökstutt álit er annað stig í samningabrotamálum ESA vegna brota á ákvæðum EES-réttar. Ef Ísland og Noregur fara ekki eftir álitunum, getur ESA ákveðið að leggja málið fyrir EFTA-dómstólinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert