Forsætisráðuneyti bregst við skýrslu

Stjórnarráðið.
Stjórnarráðið. mbl.is / Hjörtur

Forsætisráðuneytið fagnar því að fram komi með skýrum hætti í skýrslu
Ríkisendurskoðunar um greiðslur ráðuneyta til starfsmanna
félagsvísindasviðs Háskóla Íslands að Ríkisendurskoðun hafi enga ástæðu
til þess að ætla að upplýsingum hafi vísvitandi verið leynt með svari
forsætisráðherra. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá ráðuneytinu,

Í tilkynningunni segir að beiðni forsætisnefndar Alþingis, sem liggur til grundvallar skýrslu Ríkisendurskoðunar, hafi verið ítarlegri en fyrirspurn þingmannsins til forsætisráðherra, þar sem ekki hafi verið hægt að lesa út úr fyrirspurninni að óskað væri upplýsinga um tímabundin störf eða nefndalaun.

Þess má geta, til upprifjunar, að fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar frá 14. október 2010 var svohljóðandi:

„1. Hvernig skiptist kostnaður ráðuneyta við aðkeypta þjónustu, ráðgjöf og sérverkefni núverandi starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands á tímabilinu frá maí 2007 til nóvember 2010? 

2. Hvernig skiptist framangreindur kostnaður eftir einstökum sérverkefnum, þjónustu og ráðgjöf milli núverandi starfsmanna félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og/eða félaga þeirra?“

Forsætisráðuneytið bendir í tilkynningunni á að fyrirspurnin hafi þrívegis verið prentuð upp og henni breytt, „sem er mjög óvenjulegt og jók verulega hættu á að villur kæmu upp við vinnslu svarsins“.

Í tilkynningunni segir að  forsætisráðuneytið fallist á að rétt hefði verið að setja fram í skriflegu svari fyrirvara um afmörkun svarsins varðandi félög, en að það telji að útilokað hefði verið að afla upplýsinga þar að lútandi innan þess frests sem gefinn er samkvæmt lögum til þess að svara skriflegum fyrirspurnum.

„Þörf var á flókinni upplýsingaöflun frá utanaðkomandi aðilum og rannsókn sem ekki hefði verið unnt að vinna nema á mun lengri tíma.“

Hafna því að yfirsýn skorti

Ennfremur segir í tilkynningunni að forsætisráðuneytið hafni því að ráðuneyti innan Stjórnarráðs Ísland hafi ekki nægilega yfirsýn yfir aðkeypta þjónustu. Hins vegar fellst ráðuneytið á að fjármálaráðuneytið þurfi að setja samræmdar reglur um notkun launakerfisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert