Þakklát fyrir aðstoð eftir gos

Frá Kirkjubæjarklaustri þegar öskumistrið var sem mest.
Frá Kirkjubæjarklaustri þegar öskumistrið var sem mest. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Með öflugri hjálp góðra vina hefur Skaftárhreppi tekist á undraverðan hátt að koma hinu daglega lífi í fastar skorður á ný eftir eldgosið í Grímsvötnum í vor þó enn séu næg verkefni fyrir hendi. Færir sveitarfélagið þeim fjölmörgu sem veittu liðsstyrk í baráttunni hugheilar þakkir fyrir í tilkynningu sem það hefur sent frá sér.

Í tilkynningunni segir að í upphafi hafi útlitið ekki verið gott.  Algert myrkur af þéttu öskufalli grúfði yfir í tvo sólarhringa, og mældist öskulag allt upp í 9 cm jafnfallið. Um 20.000 veturfóðraðar ær voru í hreppnum og var sauðburði nýlokið og fé komið út á flestum bæjum. Því megi áætla að um 60.000 kindur hafi orðið fyrir barðinu á öskufallinu.

Orðrétt segir í tilkynningunni:

„Strax við upphaf gossins tóku Almannavarnir til starfa og hópur hjálparsveitamanna mætti.  Þegar fór að birta voru fleiri björgunarsveitir kallaðar til aðstoðar við hin ýmsu verkefni og slökkvilið hvaðanæva að mættu til að aðstoða okkur við að skola ösku af húsum.  Hinir ýmsu hópar sjálfboðaliða mættu líka og hjálpuðu okkur við innanhúshreinsun, því eins og gefur að skilja þurfti að hreinsa hvern einasta hlut. Liðsstyrkur þessara hópa og hjálpsemi var okkur algerlega ómetanleg.  Áherslan var í fyrstu lögð á ferðaþjónustur, skólann, leikskólann og hjúkrunarheimilið okkar og svo voru hinar ýmsu stofnanir þrifnar í kjölfarið.  Allt gekk þetta ótrúlega hratt og vel fyrir sig og sannast enn og aftur hvers Íslendingar eru megnugir þegar áföll dynja yfir.“ 
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert