Besta útihátíðin tókst með ágætum

Vefsíða Bestu útihátíðarinnar.
Vefsíða Bestu útihátíðarinnar.

„Þetta gekk vel fyrir sig, eftir því sem við best vitum voru allir ánægðir og glaðir og við vorum meira og minna laus við allt vesen,“ segir Sigmundur Lárusson, einn aðstandenda Bestu útihátíðarinnar  sem var haldin á Gaddstaðaflötum við Hellu um helgina.

„Að vísu komu upp nokkuð mörg fíkniefnamál, en það helgast kannski eitthvað af því að það var svo ströng gæsla og það voru þrír fíkniefnahundar á svæðinu til að leita.“

Lögreglan á Hvolsvelli tekur í sama streng og segir að meirihluti þeirra fíkniefna sem fundust hafi verið kannabisefni og að magnið bendi til þess að það hafi í allflestum tilvikum verið ætlað til einkaneyslu. Ekkert kynferðisbrot hefur verið kært á hátíðinni. Nokkuð var um minniháttar pústra, en gæsla og lögregla lögðu áherslu á að stöðva slík áflog, áður en þau kæmust á alvarlegt stig og tókst það með ágætum, að sögn lögreglu.

Hátíðargestir eru nú að taka saman föggur sínar, en tiltekt er hafin á svæðinu og verið er að taka niður sviðið. Lögreglan á Hvolsvelli býður þeim sem hyggja á að setjast undir stýri að blása í áfengismæli og var röð í mælinn um klukkan tvö í dag.

Sigmundur segir að um 8500 miðar hafi selst á hátíðina. „En það voru talsvert fleiri á svæðinu, starfsfólk, gæsla, lögregla og skemmtikraftar voru líklega alls á bilinu 800-1000. Þannig að það voru hátt í 10.000 manns, þegar mest var.“


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert