Eden aðdráttarafl með allt að 500 þúsund gesti á ári

Bragi Einarsson í Eden árið 1972.
Bragi Einarsson í Eden árið 1972. mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Bragi Einarsson garðyrkjufræðingur stofnaði garðyrkjustöðina Eden í Hveragerði 1958 og rak hana í nær hálfa öld. Hann seldi fyrirtækið snemma árs 2006 og lést nokkrum mánuðum síðar.

Karen Wellk, ekkja Braga, vann með manni sínum í Eden síðasta aldarfjórðunginn. „Þetta er mjög sorglegt,“ segir hún um brunann. „Í mínum huga hefur Eden og eiginmaður minn alltaf verið eitt og það sama og þegar hann féll frá lauk þessum kafla hjá mér. En að búa í Hveragerði og vinna með fjölskyldunni var ómetanlegt.“

Eden miðpunkturinn

Eden var helsta kennileitið í Hveragerði og helsti samkomustaður bæjarins. Karen segir að Bragi hafi talið að um 400 til 500 þúsund manns hafi komið í Eden á ári síðustu árin. Vissulega hafi tekið tíma að byggja staðinn upp en gestum, jafnt innlendum sem erlendum, hafi fjölgað jafnt og þétt. Háannatíminn hafi verið á sumrin en tímabilið hafi lengst í báða enda upp úr 1980, byrjað fyrir páska og staðið fram í september, auk þess sem jólavertíð hafi hafist með skipulögðum jólaferðum útlendinga til Íslands.

Karen segir að fljótlega hafi borið á því að Íslendingar hafi komið við í Eden á leið í sumarbústað og bíltúrar þangað um helgar frá Stór-Reykjavíkursvæðinu og víðar hafi verið vinsælir. Í hugum margra hafi Eden verið fastur punktur í tilverunni, hluti af helginni eða fríinu. „Það tók Braga langan tíma að byggja Eden upp en Eden var hans ástríða í lífinu og það voru forréttindi hans að getað unnið við það sem hann hafði ástríðu fyrir. Þetta var glæsilegur staður.“

Rætt hefur verið um að byggja eigi Eden upp á ný. Karen segir að það hafi alltaf verið ósk fjölskyldunnar að Eden héldi áfram að dafna eftir að fyrirtækið var komið í annarra manna hendur. Sú von væri ekki síður í brjósti sér nú eftir brunann. „Það væri æskilegt en hvort það sé raunhæft veit ég ekki.“

Ekki gefast upp

Valgerður Jóhannesdóttir tekur í sama streng, en hún hætti að vinna í Eden í vor eftir um 39 ára starf, gekk í hvað sem var en vann einkum við að smyrja brauð og baka. „Þetta er ömurleg sjón en hurðin er óskemmd og Eden-merkið líka,“ segir hún. „Hvað segir það? Segir það ekki að það eigi að halda áfram? Það þýðir ekkert að gefast upp.“

Þegar mest var störfuðu um 40 manns í Eden. Þangað hefur legið stöðugur straumur ferðamanna og þeir hafa líka beint viðskiptum sínum til annarra í bænum. Valgerður segir að farþegar skemmtiferðaskipa hafi gjarnan komið við í Eden og sama eigi við um aðra hópa. „Þetta er voðalegt högg,“ segir Valgerður. „Það var gaman að fá fólk í húsið og sjá húsið fullt af fólki sem leið vel.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert