Ráðherrar víki af þingi

Stjórnlagaráð á fundi.
Stjórnlagaráð á fundi.

Stjórnlagaráð samþykkti í morgun tvo kafla í drögum að nýrri stjórnarskrá.
Eftir hádegi fer fram umræða og atkvæðagreiðsla um kafla 6-9 í stjórnarskrárfrumvarpinu, sem liggur fyrir ráðinu og síðan atkvæðagreiðsla um frumvarpið í heild.

Í kafla um ráðherra og ríkisstjórn er m.a. gert ráð fyrir því að alþingismenn, sem gegna ráðherraembætti, víki úr þingsæti á meðan og hafi þar ekki atkvæðisrétt.

Þá er meðal nýmæla í kaflanum, að enginn geti gegnt sama ráðherraembætti lengur en í átta ár. Þá kjósi Alþingi forsætisráðherra. Kveðið er á um upplýsinga-og sannleiksskyldu ráðherra.

Ráðherrar og önnur stjórnvöld veita embætti, sem lög mæli fyrir um, og við skipan í embætti skuli hæfni og málefnaleg sjónarmið ráða. Þegar ráðherra skipar í embætti dómara og ríkissaksóknara skuli skipun borin undir forseta Íslands til staðfestingar. Synji forseti Íslands skipun staðfestingar þarf Alþingi að samþykkja skipunina með 2/3 atkvæða til að hún taki gildi.

Loks er kveðið á um að ráðherra sé veitt lausn úr embætti ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á hann. Ríkisstjórn er veitt lausn ef meirihluti þingmanna samþykkir tillögu um vantraust á forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert