Ísland fyrirmynd Evrópulanda?

Klyfjaðir erlendir ferðamenn í Reykjavík.
Klyfjaðir erlendir ferðamenn í Reykjavík. Eggert Jóhannesson

Spurt er hvort að Ísland geti verið fyrirmynd skuldsettra Evrópulanda þegar kemur að efnahagsbata í pistli blaðamanns breska ríkisútvarpsins BBC. Í stað þess að dæla fé í fjármálastofnanir hafi Íslendingar látið þær fara á hausinn. Íslenska krónan hjálpi svo til við að reisa landið úr rústunum.

Er pistillinn nú sá mest lesni á heimasíðu BBC og vísar blaðamaðurinn, Justin Rowlatt, þar meðal annars í samtal við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands. Hefur hann eftir forsetanum að hagkerfið á Íslandi vaxi nú hraðar en í flestum öðrum Evrópulöndum og halli hins opinbera sé minni. Atvinnuleysi minnki og landið hafi nýlega aflað milljarða dala á hagstæðum kjörum á alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum.

Lykillinn að endurreisninni sé þó ekki aðeins sá að koma skikki á bankakerfið heldur einnig að taka vilja þjóðarinnar fram yfir fjármálastofnanir.

„Í Evrópu er ágreiningur á milli lýðræðislegs vilja þjóðanna og hagsmuna fjármálamarkaða,“ hefur blaðamaðurinn eftir Ólafi Ragnari. Evrópusamstarfið hafi enga merkingu ef það snúist ekki um lýðræði.

Ísland hafi hunsað viðvaranir alþjóðlegra matsfyrirtækja og annarra stofnanna. Þrátt fyrir það vegni landinu nú ágætlega. Dregur Rowlatt þá ályktun af orðum forsetans að hann sé þeirrar skoðunar að önnur lönd ættu að fylgja fordæmi Íslands.

Krónan sé þó lykilatriði í efnahagsbata Íslands sem evruríkjum standi ekki til boða. Hún hafi fallið með bönkunum og það sé ástæðan fyrir því að ferðamenn flykkist nú til landsins enda mun ódýrari fyrir þá að koma hingað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert