Hvetur Japani til að horfa til Íslands

Yoko Ono í Reykjavík.
Yoko Ono í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Yoko Ono vill að Japan hætti að nota kjarnorku og taki í staðinn upp endurnýtanlega orkugjafa. Hún hvetur landa sína til að horfa til Íslands sem nýti jarðhita við orkuframleiðslu.

Í dag eru  66 ár liðin frá því að kjarnorkusprengja var sprengd yfir japönsku borginni Hiroshima, en talið er að um 140 þúsund manns hafi látist í sprengingunni eða í kjölfar hennar.

Um 50 þúsund manns fóru í göngu í Hiroshima til að minnast þessa atburðar.

Yoko Ono, ekkja bítilsins Johns Lenons, er núna í Japan, en þetta er í fyrsta skipti sem hún heimsækir landið frá því að flóðbylgja gekk á land 11. mars sl. í kjölfar stórs jarðskjálfta. Flóðbylgjan skall á kjarnorkuverinu í Fukushima og í framhaldinu urðu sprengingar í verinu. Þetta er alvarlegasta kjarorkuslysið í 25 ár.

Ono hefur opnað nýja sýningu sem hún kallar „The Road of Hope“, en hún segir að Japan geti eflst við þetta áfall líkt og landið gerði eftir seinni heimsstyrjöldina.

Ono segir að Japan verði að hætta að nota kjarnorku og hún bendir á Ísland sem fyrirmynd. Þar sé jarðhitinn í iðrum jarðar virkjaður.

Naoto Kan, forsætisráðherra Japans, sagði við minningarathöfn í Hiroshima í dag að Japanir yrðu að auka nýtingu á öðrum orkugjöfum en kjarnorku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert