Telur að evran eigi eftir að verða sterkari

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson Reuters

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, telur að evran eigi eftir að styrkjast  í kjölfar þeirra hremminga sem nú ríkja á mörkuðum.

Í viðtali við hádegisfréttir Bylgjunnar segir Össur að langvarandi frost á erlendum mörkuðum geti haft áhrif á viðskiptakjör Íslendinga. Ísland sé hins vegar betur í stakk búið en önnur ríki til að takast á við erfiðleika. „Þessar miklu hræringar munu hafa áhrif á öll ríki heims. En svo merkilegt sem það er verða áhrifin kannski minnst á ísland. Það er sennilega ekkert ríki jafn vel varið og Ísland. Þar kemur tvennt til. Gjaldeyrishöftin halda okkur frá þessum fossandi flaumi sem nú streymir um fjármálamarkaði. Og svo hitt að ríkisstjórnin var ekki allskostar óviðbúin þessu. Við tókum alla þá möguleika sem voru uppi til að afla okkur gjaldeyris og getum staðið straum af afborgunum til 2015, 2016," segir Össur í samtali við Bylgjuna.

„Fyrir framtíð Íslands og Evrópu eru þessar framkvæmdir sem nú er ráðist í óhjákvæmilegar. Og ég tel að evran komi miklu sterkari út úr því en hún er í dag og það eru góðar fréttir, ekki bara fyrir Evrópu og heiminn heldur ekki síst fyrir Ísland sem er að velta fyrir sér að gerast aðili að myntbandalaginu, því ef við yrðum aðilar að ESB eigum við kost á því að taka upp evruna . Það er í augum margra eftirsóknarvert að því gefnu að það sé búið að taka til á fjármagnsmörkuðum Evrópu."
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert