Vill skorður á ríkisfjármálin

Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er fylgjandi því að framkvæmdavaldinu verði settar reglur, jafnvel í stjórnarskrá, um hvað megi og hvað megi ekki, í ríkisfjármálum.

„Mín skoðun er að það sé mikill misskilningur að við Íslendingar þurfum erlent agavald í þeim efnum. Við getum sett okkur okkar eigin viðmið og sett þinginu með sérstökum lögum eða eftir atvikum í stjórnarskrá, viðmið um það hvernig menn megi haga sér í ríkisfjármálum," segir Bjarni í samtali við mbl.is

Í þessu sambandi bendir hann á skuldaþakið margumrædda í Bandaríkjunum og reglur þær sem þýska sambandsþingið hefur sett ríkinu þar í landi, óháð reglum Evrópusambandsins. Bjarni telur fullt tilefni til að Íslendingar taki upp svipaðar reglur.

Þetta segir Bjarni í tilefni af því að leiðtogar valdamestu ríkja Evrópusambandsins, Þýskalands og Frakklands, þau Angela Merkel og Nicolas Sarkozy kynntu í dag hugmyndir sínar um meira yfirþjóðlegt vald innan Evrópusambandsins í fjármálum aðildarríkjanna og ekki síst evruríkjanna. Bjarni segir ummæli leiðtoganna gefa tilefni til sérstakrar umræðu hér á Íslandi um Evrópumálin.

Á fundi utanríkismálanefndar Alþingis á fimmtudag á að ræða stöðu evrunnar í dag og mun Már Guðmundsson seðlabankastjóri mæta á fundinn. Einnig var málið rætt stuttlega á fundi nefndarinnar í dag, þar sem Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sat fyrir svörum.

Nánar er fjallað um starfið í utanríkismálanefnd í Morgunblaðinu á morgun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert