Aðför að vinnandi fólki

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Stjórn VR mótmælir vaxtahækkun Seðlabanka Íslands sem tilkynnt var miðvikudaginn 17. ágúst. Engar forsendur eru til að hækka vexti nú og jafngildir þessi ákvörðun aðför að hagsmunum vinnandi fólks, segir í ályktun stjórnarinnar sem birt er hér að neðan.

„Stjórn VR mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Seðlabanka Íslands að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig. Engar forsendur eru til vaxtahækkana í ljósi stöðunnar í þjóðfélaginu og er ákvörðun bankans því óskiljanleg. Vaxtahækkun nú er síst til þess fallin að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik og mun í raun hamla frekari uppbyggingu og fjárfestingum.

Ákvörðun Seðlabankans dregur einnig úr þeirri von að hægt sé að minnka atvinnuleysi á komandi misserum svo um munar. Vaxtahækkunin er köld kveðja til almennings í landinu sem axlað hefur þungar byrðar frá hruni og býr við einhverja hæstu vexti á byggðu bóli. Íslenskt launafólk hefur ekki bolmagn til að bæta á sig frekari byrðum.

Vaxtaákvörðun bankans gengur þvert á stefnu stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem mörkuð var við gerð síðustu kjarasamninga og á að stuðla að uppbyggingu íslensks efnahagslífs, örva hagvöxt með arðsömum fjárfestingum og skapa ný störf.

Vaxtahækkun nú jafngildir því einfaldlega aðför að hagsmunum vinnandi fólks."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert