Stendur við fyrri yfirlýsingu

Þráinn Bertelsson, þingmaður VG.
Þráinn Bertelsson, þingmaður VG.

„Ég sagði einfaldlega að ef ekki yrði fundin sanngjörn lausn á málefnum Kvikmyndaskólans myndi ég ekki styðja fjárlögin. Og það stendur,“ segir Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs.

Eins og greint hefur verið frá hér á mbl.is hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið komist að þeirri niðurstöðu að Kvikmyndaskóli Íslands uppfylli ekki skilyrði viðurkenningar um rekstrarhæfi. Ríkisendurskoðun hefur tekið undir þetta mat og telur að gera eigi úttekt á því hvernig farið var með fjárframlög ríkisins í rekstri skólans.

„Þetta er bara þvílík handabakavinna og er bara ráðuneytinu og þeim sem þar ráða húsum til mikillar skammar, finnst mér. Ég get ekki sagt annað,“ segir Þráinn um afgreiðslu mennta- og menningarráðuneytisins á málinu. Óvissa ríkir um starfsemi Kvikmyndaskólans í vetur en skólinn átti að óbreyttu að hefja starfsemi innan nokkurra daga.

Hörð gagnrýni á menntamálaráðherra

Þráinn vill meina að Kvikmyndaskólinn hafi verið lagður íeinelti og að í menntamálaráðuneytinu ríki greinilega óvild í garð skólans. Hann tekur þó fram að hann sé viss um að Svandís Svavarsdóttir, starfandi menntamálaráðherra, hafi ekki haft frumkvæði að þessari niðurstöðu heldur verið sett í óbærilega stöðu.

Hann segir um fyrirhugaða rannsókn Ríkisendurskoðunar á meðferð fjárframlaga ríkisins til Kvikmyndaskólans að vitanlega sé eðlilegt að stofnanir sem með einhverjum hætti séu reknar fyrir opinbert fé, hvort sem þær eru einkareknar eða opinberar, heyri undir eftirlit þess. Hins vegar sé það „einstaklega ruddaleg aðgerð“ að siga Ríkisendurskoðun á skólann við þær aðstæður sem uppi séu.

„Mér finnst þetta bara vera ótrúlega sorglegt mál. Og sorglegast af öllu þessu finnst mér vera að það sé fólk úr mínum flokki sem á að stjórna þessu ráðuneyti. Ég hélt að það væri áhugi á menningu í þessum flokki,“ segir Þráinn og kennir um skrifræði í menntamálaráðuneytinu og aðgerðaleysi menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur.

Skólinn ekki rekstrarhæfur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert