Ósáttir við að Búlandsvirkjun fari í biðflokk

Skaftá. Úr myndasafni.
Skaftá. Úr myndasafni. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

„Við erum auðvitað engan veginn sáttir við þetta en við höldum okkar striki á meðan þingið fjallar um málið,“ segir Guðmundur Valsson, framkvæmdastjóri Suðurorku. Hann segist ekki trúa því að þingið muni stöðva góða virkjunarkosti eins og Búlandsvirkjun sem fyrirtækið hyggst reisa í Skaftá. „Það eru fáir kostir sem hafa verið jafn mikið athugaðir og þessi.“

Búlandsvirkjun hefur verið sett í biðflokk samkvæmt dögum að þingsályktunartillögu um verndun og nýtingu náttúrusvæða sem kynnt voru í dag en var áður komin á aðalskipulag. Talsverð andstaða hefur verið á meðal landeigenda á svæðinu við það að virkjunin verði reist og þá einkum sauðfjárbænda sem segjast missa mikilvæg beitalönd undir uppistöðulón virkjunarinnar.

Guðmundur segir að aðalskipulagið fyrir svæðið liggi fyrir til staðfestingar hjá umhverfisráðherra og hafi gert í nokkuð langan tíma, en ráðherrann hafi ekki enn staðfest það. „En umhverfisráðherra er síðan sjálfur búinn að samþykkja eitthvað sem tengist þessu en er ekki heldur komið inn, það er Vatnajökulsþjóðgarður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert