Sjálfstæðismenn vilja fund sem fyrst

Ólöf Nordal þingmaður
Ólöf Nordal þingmaður mbl.is/Árni Sæberg

Ólöf Nordal, Bjarni Benediktsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd, auk Einars K. Guðfinnssonar og Jóns Gunnarssonar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í sjávar- og landbúnaðarnefnd, óska eftir að nefndirnar verði kallaðar á sameiginlegan fund við allra fyrsta hentugleika.
 
Tilefni fundarins er bréf frá Jan Tombinski, fastafulltrúa Póllands hjá Evrópusambandinu, þar sem  fram kemur að Ísland sé ekki tilbúið til samninga um landbúnaðarmál í aðildarviðræðunum.  Er þetta bréf sent samhliða því að lögð var fram rýniskýrsla sambandsins um landbúnaðarmál, samkvæmt tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.
 
Í dag bárust svo  viðbrögð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við þessu bréfi.
Telja þingmennirnir nauðsynlegt að fara rækilega yfir stöðu aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið í ljósi þessa.
 
Óskað er eftir því að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra komi til fundarins og skýri stöðu þessa máls, samkvæmt fréttatilkynningu.
 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert