Flogið yfir Kötlu

Mýrdalsjökull. Katla er í baksýn.
Mýrdalsjökull. Katla er í baksýn. mbl.is

Magnús Tumi Guðmundsson jarðvísindamaður var á leið í eftirlitsflug yfir Mýrdalsjökul upp úr klukkan sex í dag ásamt fleiri vísindamönnum. Magnús sagði flugið m.a. leiða í ljós hvort komið væri fram eitthvert vatn en væntanlega einnig sýna hvort ástæða væri til að fylgjast með fleiri þáttum við Kötlu. Gert er ráð fyrir að flugið taki um tvo tíma.

Ákveðið var í dag að fljúga yfir jökulinn til þess að skoða aðstæður en talsverð jarðskjálftavirkni hefur verið í jöklinum að undanförnu.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur deildin og lögreglan á Hvolsvelli fylgst náið með jarðskjálftavirkni í Mýrdalsjökli í samvinnu við vísindamenn Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Ein skjálftahrinan reið yfir nú í hádeginu og stóð í um hálftíma. Skjálftarnir voru flestir litlir eða um eða kringum 1 stig en sá stærsti þó um 1,8 stig að sögn Hjörleifs Sveinbjörnssonar, jarðfræðings hjá Veðurstofunni. 

Ekki hefur verið talin ástæða til að lýsa yfir háskastigi en vísindamannaráð almannavarna mun hittast á morgun og fara yfir stöðu og þróun mála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert