Ríkir Íslendingar og risaþotur

Alistair Darling.
Alistair Darling. Reuters

Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands, fjallar talsvert um samskipti sín við Íslendinga í nýrri bók sinni og segir m.a. að á uppgangstíma íslensku bankanna hafi þónokkrir Íslendingar orðið afar ríkir.

„Sumir gátu jafnvel látið umtalsverðar fjárhæðir af hendi rakna til breska Íhaldsflokksins," segir Darling en hann gegndi ráðherraembættum í ríkisstjórn Verkamannaflokksins allt frá 1997 til 2010.

Hann segir síðan að árið 2008 hafi verið orðið ljóst að Ísland stefndi hratt í gjaldþrot.

„Fyrr á þessu ári hafði Gordon (Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands) talað við íslenska forsætisráðherrann sem hafði áður verið seðlabankastjóri landsins. Hann var tregur til og vildi frekar reyna að fá rússnesk lán til að fleyta landinu yfir erfiðleikana," segir Darling í bókinni.

Síðar lýsir Darling ástandinu í byrjun október 2008 þegar fjármálakreppan var skollin á af fullum þunga og breska bankakerfið riðaði til falls. Darling þurfti þá að fara á fund fjármálaráðhera Evrópusambandsins í Lúxemborg og segir, að honum hafi þótt réttlætanlegt að leigja flugvél til að fara á milli þar sem hann þurfti að flýta sér aftur til Lundúna eftir fundinn.

„Ég undraðist oft flota einkaþotnanna sem biðu á flugvöllum í tengslum við alþjóðlega fundi og ég tók eftir því að eftir því sem löndin eru minni eru þoturnar stærri," segir Darling. „Þegar við lentum benti Geoffrey Spence, sérstakur ráðgjafi minn, mér á tvær íslenskar risaþotur sem stóðu á flugbrautinni. Við ókum framhjá þeim í flugvélinni okkar sem var á stærð við Spitfire-hervél."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert