Árni Páll: Flotkrónan snýr ekki aftur

Árni Páll Árnason, efnahags-og viðskiptaráðherra.
Árni Páll Árnason, efnahags-og viðskiptaráðherra. mbl.is/GSH

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir íslensk stjórnvöld ekki hafa nein áform um að taka aftur upp fljótandi krónu. Boðar ráðherrann að reynt verði að festa krónuna með einhvers konar tengingu. Hann útskýrði þó ekki hvernig það yrði útfært.

Það var Bloomberg-fréttaveitan sem ræddi við Árna Pál í Kaupmannahöfn en ekki kemur fram hvaða erindi ráðherrann átti í höfuðborginni dönsku.

Gengi krónu var sett á flot í mars 2001 og verðbólgumarkmið tekið upp undir forystu Seðlabanka Íslands. Krónan var á floti í 92 mánuði en hrundi endanlega með bankakerfinu í október 2008, eins og hagfræðingurinn Bjarni Már Gylfason benti nýlega á.

Stjórnvöld stefni að upptöku evrunnar

Árni Páll segir að ekki verði snúið aftur til flotkrónunnar.

„Við munum þurfa að hafa einhvers konar takmarkanir á frjálsu gengi gjaldmiðilsins. Eina atburðarásin sem við getum raunverulega treyst á er fullkomlega opinn og frjáls aðgangur að upptöku evrunnar,“ sagði ráðherrann í lauslegri þýðingu úr ensku.

Sem kunnugt er þurfa ríki að uppfylla skilyrði Maastricth-samkomulagsins til að geta tekið upp evru.

Árni Páll boðar að við stjórn ríkisfjármála á næstu árum verði leitast við að uppfylla þessi skilyrði en þau kveða m.a. á um að halli af fjárlögum sé ekki meiri en sem nemur 3% af vergri þjóðarframleiðslu ársins á undan.

„Peningastefnan verður að gera okkur kleift að taka upp evruna ef við ákveðum að gerast aðildarríki Evrópusambandsins. Peningastefnan þarf að gefa okkur eins mikinn stöðugleika og kostur er þangað til við tökum upp evruna.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert