Skuldir lækkuðu um 23 milljarða

Landsbankinn segir, að skuldalækkun, sem bankinn kynnti í maí, hafi snert nærri 60 þúsund viðskiptavini bankans. Alls hafi skuldir viðskiptavina bankans lækkað um 23,1 milljarð króna vegna þessara aðgerða.

Skuldalækkunin fólst í lækkun fasteignaskulda með aðlagaðri 110% leið þar sem miðað var við fasteignamat í stað verðmats áður. Þá endurgreiðir bankinn skilvísum viðskiptavinum 20% af þeim vöxtum sem þeir  greiddu frá 1. janúar 2009 til  30. apríl 2011. Loks eru skuldir umfram greiðslugetu lækkaðar, t.d. yfirdráttur, skuldabréfalán og lánsveð. Sú lækkun getur numið 8 milljónum króna hjá hjónum, en 4 milljónum króna hjá einstaklingum.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir, að meginmarkmið bankans á þessu árið hafi verið að hraða uppgjöri skuldamála heimilanna. Að mati forsvarsmanna bankans hafi þær leiðir, sem voru í boði, of tafsamar og flóknar og því var öll vinna við úrvinnslu skuldamála einfölduð og henni hraðað með sjálfvirkum keyrslum úr  gagnagrunnum.

Þetta hafi m.a. skilað því að þó aðeins 2000 manns hafi sótt um svonefnda 110% leið verði skuldir rúmlega 3500 lækkaðar til samræmis við niðurstöðu leitar í gagnagrunnum bankans.

Vefur Landsbankans

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert