Engin útgjöld vegna Icesave

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið fyrir fjölmiðlum í dag.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið fyrir fjölmiðlum í dag. mbl.is/Golli

Ekki er gert ráð fyrir útgjöldum vegna Icesave í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir ómögulegt að áætla hvort og þá hversu mikil útgjöld ríkissjóður kanna að þurfa taka á sig vegna þessa.

„Þetta mál er enn óútkljáð og gæti haft í för með sér fjárhagslega áhættu fyrir ríkissjóð," sagði Steingrímur. „Það er ómögulegt að áætla það á þessu stigi málsins. Útgjöldin gætu orðið engin ef allt færi á besta veg en það er líka ljóst að þetta gæti farið illa. Ef við töpuðum dómsmáli þannig að við teldumst hafa mismunað kröfuhöfum þá gætu menn á grundvelli þess reist ansi háa vaxtakröfu á Ísland. Við getum haft það til viðmiðunar að nýjasta uppfært mat á kostnaði vegna Icesave-samninganna frá síðasta vetri stæði núna í 25 milljörðum króna. Við myndum ekki fara á hjörunum yfir því þó að einhvern tímann í framtíðinni þyrftum við hugsanlega að bera þann kostnað.“

Í fjárlagafrumvarpinu segir, að samningsbrotamál Eftirlitsstofnunar EFTA á hendur íslenskum stjórnvöldum fyrir EFTA dómstólnum virðist óumflýjanlegt vegna Icesave-málsins. Óvissa um lyktir þess dómsmáls, og aðrir óvissuþættir, valdi því að ógerningur sé að áætla með nokkurri vissu þann kostnað sem kunni að lenda á ríkissjóði. 

Endanlegur kostnaður gæti orðið lítill eða enginn ef niðurstaða dómsmála verði með hagfelldasta hætti fyrir ríkissjóð. Á hinn bóginn gæti önnur niðurstaða valdið ríkissjóði mjög alvarlegum skakkaföllum. Færi svo þyrfti að endurskoða frá grunni meginmarkmið ríkisfjármálaáætlunarinnar.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2012

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert