Slæm veðurspá fyrir norðan

Vegfarendur eru varaðir við því að spáð er hvassri norðvestanátt og takmörkuðu skyggni í kvöld, einkum og sér í lagi í Víkurskarði og veginum um Mývatns- og Möðrudalsöræfi.

Fram á kvöldið ágerist éljagangur og snjókoma norðanlands, einkum á svæðinu frá Vatnsskarði og Þverárfjalli í vestri, austur um í Þistilfjörð og á Vopnafjarðarheiði í austri.

Á láglendi verður víðast um að ræða blautan snjó eða krapa og ágætt að hafa í huga að lítið eitt hlýnar í veðri síðar í kvöld og nótt.

Á Vestfjörðum og við Húnaflóa og þ.m.t. á Holtavörðuheiði er ekki útlit fyrir éljagang sem heitið getur og vindur verður að auki fremur hægur á þeim slóðum, samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni.

Á Vestfjörðum eru hálkublettir á flestum fjallvegum. Norðvestanlands eru hálkublettir á Öxnadalsheiði og á Víkurskarði. Hálka er á Siglufjarðarvegi og snjóþekja ásamt éljagangi  á Þverárfjalli. Á Norðausturlandi er hálka, hálkublettir og éljagangur. Snjóþekja er þó á Hólasandi. Á Austurlandi eru hálkublettir á Möðrudalsöræfum og hálka og skafrenningur á Hellisheiði eystri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert