Ráðherra veiti ríkisborgararétt

Vigdís Hauksdóttir.
Vigdís Hauksdóttir. mbl.is/Ómar

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði í dag fram frumvarp sitt til laga um breytingar á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Þar er lagt til að innanríkisráðherra fái heimild til að veita fólki íslenskan ríkisborgararétt, í stað Alþingis sem hefur haft þá heimild.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. „Innanríkisráðuneytið færi með þær valdheimildir sem tiltækar eru í undanþágum þegar veita þarf þeim ríkisfang sem öðlast ekki íslenskt ríkisfang við fæðingu.“  

Í greinargerðinni segir ennfremur að lagasetning Alþingis um ríkisborgararétt hafi lengst af gengið vel og fjölmargir einstaklingar hafi öðlast ríkisborgararétt með þeim hætti.

„Vinnuferlið hefur verið að dómsmálaráðuneytið (nú innanríkisráðuneyti) hefur gefið umsögn til Alþingis, eftir samráð við lögreglustjóra á dvalarstað umsækjanda og Útlendingastofnun. Í þessum umsögnum er lagt mat á hvort einstaklingur uppfylli skilyrði laga um ríkisborgararétt, m.a. hvort hann geti sannað hver hann er, hvort hann hafi brotaferil að baki, hvernig fjölskylduaðstæður hann búi við, hvort hann geti sýnt fram á framfærslu o.s.frv. Þeir þjóðkjörnu fulltrúar sem á Alþingi sitja hafa lengst af tekið tillit til þessara umsagna og farið að ráðgjöf ráðuneytisins. Nú hefur orðið breyting á og í a.m.k. tvígang hefur Alþingi, að tillögu meiri hluta allsherjarnefndar, gengið lengra en ráðuneytið ráðleggur. Til framtíðar getur slíkt skapað mikinn vanda fyrir íslenskt þjóðfélag í heimi þar sem ríkisborgararéttur, sá dýrmæti frumréttur, er ekki eins sjálfsagður og áður var. Geti einstaklingur ekki sannað ríkisfang sitt eru honum allar dyr lokaðar og í seinni tíð hafa hafist ólögleg viðskipti með þennan rétt. Því verða allir að vera á varðbergi í þessu mikilvæga máli og leggja allt af mörkum til að loka fyrir leiðir sem eru á gráu svæði," segir einnig í greinargerð frumvarpsins, sem Vigdís mælti fyrir á Alþingi í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert