Aðför að þjónustu við sjúka aldraða

Loka á níu rúma líknardeild sem er á Landspítala Landakoti.
Loka á níu rúma líknardeild sem er á Landspítala Landakoti. mbl.is/Ómar Óskarsson

Starfsfólk líknardeildar aldraðra á Landspítala Landakoti mótmælir harðlega fyrirhugaðri lokun á líknardeildinni. Starfsmennirnir hafa sent öllum alþingismönnum bréf þar sem skorað er á þá að draga úr niðurskurði gagnvart öldruðum.

Í bréfinu segja starfsmenn að þeir lýsi yfir vonbrigðum með þá ákvörðun að loka deildinni og lýsa áhyggjum sem þetta hefur fyrir sjúklinga. Skorað er á ráðamenn að draga úr niðurskurði gagnvart Landspítala og að þeir beiti sér fyrir því að líknarþjónusta við aldraða á Landspítala verði ekki skert.

„Líknardeild aldraðra á Landspítala Landakoti var formlega opnuð 26. október 2001 með dyggum stuðningi frá Framkvæmdasjóði aldraðra, kvennadeild Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og Styrktarsjóði Landakotsspítala. Undirbúningur að stofnun deildarinnar spannaði nokkur ár en frá árinu 1991 hafði verið unnið samkvæmt leiðbeiningum um takmörkun meðferðar við lífslok á öldrunarsviði. Mikið grasrótarstarf var unnið næstu árin og á árunum 1998 til 2001 voru að jafnaði 2-4 legupláss frátekin til líknarmeðferðar á einni af öldrunarlækningadeildunum Landspítala á Landakoti. Eftir því sem fram liðu stundir kom betur og betur í ljós að fleiri legupláss vantaði fyrir sjúklinga með lífsógnandi sjúkdóma, það er sérhæfða deild þar sem unnt væri að veita líknarmeðferð á skipulagðan og sérhæfðan hátt samkvæmt bestu þekkingu á hverjum tíma. Aldraðir veikir einstaklingar eru sjúklingahópur með flókna sjúkdómsmynd og iðulega með sértækar hjúkrunarþarfir, skerta líkamlega færni og vitræna getu.

Öldruðum er að fjölga hlutfallslega og meðalaldur að hækka. Með hækkuðum aldri aukast líkurnar á krabbameinum og öðrum lífsógnandi sjúkdómum með þungbær einkenni. Samkvæmt tölum frá Þjóðarstofnunar Bandaríkjanna á sviði krabbameina (National Cancer Society) eru 65 ára og eldri 10 sinnum líklegri til að fá krabbamein og 15 sinnum líklegri til að deyja úr krabbameini en þeir sem eru yngri en 65 ára en flestir þeirra sem lagst hafa inn á líknardeild aldraðra hafa haft krabbamein.  

Við lýsum furðu okkar og áhyggjum yfir þeirri ákvörðun að skerða þessa sérhæfðu, flóknu og viðkvæmu þjónustu sem hefur verið byggð upp sl. 10-13 ár og er það  hörð aðför að þjónustu við sjúka aldraða einstaklinga sem hafa búið heima og hafa þunga einkennabyrði. Skerðing á þessari líknarþjónustu hefur keðjuverkandi áhrif á starfsemi fjölda deilda, eins og hjarta-, lungna- og krabbameinslækningadeildar en fyrst og síðast höfum við áhyggjur af hinum öldruðu einstaklingum sem eru í þörf fyrir sérhæfða einkennameðferð og umönnun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert