Óhugnanlegur peningaheimur

Systurnar Halldóra og Kristjana Guðmundsdóttir.
Systurnar Halldóra og Kristjana Guðmundsdóttir. mbl.is/Kristinn

„Maður er búinn að fá nóg af þessu ástandi,“ segir Freyr Franksson, einn þeirra sem mættu á samstöðufundinn á Austurvelli. Undir það taka systurnar Halldóra og Kristjana Guðmundsdóttir sem vita um marga sem hafa misst heimili sín.

„Það virðist engin breyting í augsýn,“ segir Freyr og bætir við að hann sé undrandi á því hversu fáir mættu í miðbæ Reykjavíkur í dag. Spurður hverju hann vonast til að sjá breytt nefnir Freyr fjármálaheiminn. „Manni finnst þessi peningaheimur óhugnanlegur, að sjá fram á að allt skuli hækka. Ég kalla þetta nútímaþrældóm, eins og þetta er að þróast. Fólk skuldar alltaf meira og meira.“

Hann segist ekki styðja ríkisstjórnina. „Ég sagði frá upphafi, við hrun, að ég vildi fá allt liðið í burtu og fá hlutlausa aðila í fimm ár, aðila sem væru ekki tengdir pólitískum hagsmunasamtökum því ég held að þegar uppi er staðið er pólitíkin að eyðileggja mest. Það verður allt svo ómennskt.“

Ömmur og afar missa af barnabörnunum

Halldóra og Kristjana hafa mætt margsinnis á Austurvöll til að mótmæla þjóðfélagsástandinu. „Við erum að mótmæla eins og allir hinir og sýna samstöðu. Maður veit um svo marga sem eru að fara mjög illa út úr þessu og eru að missa heimili sín,“ segir Kristjana.

„Maður er orðinn svolítið hræddur,“ heldur Kristjana áfram. „Mér finnst svo mikið af frábæru fólki vera að fara frá landinu okkar með börnin sín.  Ömmurnar og afarnir eru að missa af barnabörnunum og maður veit ekki hvort þetta unga fólk kemur aftur og það verður dýrara og dýrara fyrir okkur sem erum eftir að borga skattana,“ segir Kristjana og Halldóra tekur við. „Ég held þetta sé ekki búið, þetta eigi eftir að versna.“

Freyr Franksson og afastelpan Alexandra Líf.
Freyr Franksson og afastelpan Alexandra Líf. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert