Ráðuneyti endurskoðar samninga

Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur endurskoðað skilmála samninga við stofnanir sínar og einkaaðila sem það kaupir þjónustu af eða styrkir til að sinna ákveðnum verkefnum með tilliti til þess að bæta eftirlit ráðuneytisins. Alls er ráðuneytið með um 600 gildandi samninga um þessar mundir ýmist til eins árs eða nokkurra ára í senn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.

„Lögð er áhersla á útskýra betur í samningunum til hvers er ætlast af þeim sem ráðstafa opinberu fé, svo sem að hvaða markmiðum skuli unnið. Gerðar eru skýrari kröfur um skil á upplýsingum til ráðuneytisins um rekstur og verkefni sem njóta fjárveitinga. Öllum stærri samningum er fylgt eftir með formlegum fundum og tekið hefur verið í notkun sérstakt upplýsingakerfi til að vakta og halda utan um eftirlitsaðgerðir. Í því eru skilgreind vöktunaratriði, sem eru ýmis konar skilmálar er snúa bæði að ráðuneytinu og samningsaðilum, eins og t.d. gildistími, skil á greinargerðum, ársskýrslum, ársreikningum, nemendatölum, stöðufundir samningsaðila o.fl. Sjálfvirkt kerfi gefur til kynna hvenær komið er að tímamörkum í vissum vöktunarþáttum.

Vinnubrögð við gerð samninga hafa breyst talsvert. Má t.d. nefna að gagnsæi hefur aukist og birtist m.a. í því að skylt er að birta samninga opinberlega. Þá er eftirlit með einkaaðilum, sem veita þjónustu sem kostuð er af ríkinu, sambærilegt við eftirlit með stofnunum er heyra undir ráðuneytið. Að auki er nú gert ráð fyrir að ráðuneytið hafi heimildir til að grípa inn í framkvæmd samnings ef hún er að fara úr böndum eða slíta samningssambandi ef það þjónar ekki hagsmunum ríkisins."


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert