Kærleiksmaraþon á Vopnafirði

Unglingar á Vopnafirði sýna samborgurunum sínum kærleika í verki.
Unglingar á Vopnafirði sýna samborgurunum sínum kærleika í verki.

Kærleiksmaraþon æskulýðsfélags Hofsprestakalls á Vopnafirði er haldið í fimmta skipti í dag. Það fer fram í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju og stendur frá kl. 12 til 17.

Maraþonið er liður í Vinavikunni 2011 sem hófst síðasta sunnudaga á vegum krakkanna í æskulýðsfélaginu.

Kærleiksmaraþonið felst í því að opið hús verður  í safnaðarheimilinu þar sem öllum er boðið upp á vöfflur, skúffuköku, kaffi og djús, bílaþvott, andlitsmálun fyrir börnin og fleira. Allt án endurgjalds.

Þá munu unglingarnir ganga í hús á Vopnafirði og bjóða fram aðstoð sína við létt heimilisverk. Maraþonið er liður í söfnun æskulýðsfélagsins í ferðasjóð fyrir Landsmót æskulýðsfélaga kirkjunnar sem haldið verður á Selfossi 28.-30. október nk.

Kærleiksmaraþoninu lýkur með Vinamessu í Vopnafjarðarkirkju kl. 17. Unglingarnir munu taka virkan þátt í guðsþjónustunni, lesa ritningarlestur og syngja lagið „Hjálpum þeim“ sem þau hafa verið að æfa af krafti. Þá verður pítsuveisla í safnaðarheimilinu og svo lýkur dagskránni og  Vinavikunni 2011 með flugeldasýningu í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert