Ekki gert á einni helgi

Unnið við álverið í Helguvík.
Unnið við álverið í Helguvík. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að það sé ekki einfalt verk að koma framkvæmdum við álverið í Helguvík í gang og það verði ekki gert á einni helgi. Á formannafundi ASÍ í dag hefði hann hins vegar ekki lagt mat á hvort álverið gæti orðið að veruleika eða ekki.

 Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag, sagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, eftir að hafa hlustað á Hörð á formannafundi Alþýðusambands Íslands í dag, væri það hans mat að í orðum Harðar hefði falist að hverfandi líkur væru á að álver risi í Helguvík.

Var að svara formanni verkalýðsfélags

Í samtali við mbl.is í dag sagði Hörður að hann hefði á fundinum ekki lagt mat á hvort áform um álverið í Helguvík yrði að veruleika. Orð hans um álverið hefðu fallið þegar hann var að svara spurningu Kristjáns Gunnarssonar, formanns Verkalýðsfélags- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, um aðkomu Landsvirkjunar að Helguvík.

Kristján G. Gunnarsson skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag þar sem Kristján vitnar til orða Kristjáns L. Möller, formanns atvinnuveganefndar Alþingis, um að hægt væri að hefja framkvæmdir í Helguvík ef aðeins yrði gengið endanlega frá orkusölusamningum. „Umhverfismati væri lokið, starfsleyfi fengið, samningar klárir við birgja og verktaka, fjármögnun tryggð og búin,“ hafði hann eftir Kristjáni L. Möller. Í grein sinni sagði Kristján G. Gunnarsson einnig að auglýsa mætti eftir fólki til starfa helgina eftir að samningar næðust.

Hörður sagði að málið væri ekki svo einfalt að hægt væri að ljúka því á einni helgi. Eftir væri flókið ferli til að afla leyfa fyrir virkjanirnar. Þar að auki ættu allir sem kæmi að málinu eftir að fjármagna sig þ.e. Landsvirkjun, Norðurál, HS Orka, Orkuveita Reykjavíkur og Landsnet. Samtals þyrftu þessu fyrirtæki 250 milljarða til verkefnisins. „Ég sagði að þetta væri ekki fljótlegt miðað við núverandi stöðu á fjármálamörkuðum og raunar mjög erfitt. Þetta væri ekki ákveðið á einni helgi og þá færi allt í gang. Það væru óraunhæfar væntingar. En ég var ekki að leggja mat á hvort þetta væri hægt, þetta væri bara flókið ferli.“

Tók hálft ár að fá lán upp á 25 milljarða en 250 milljarða þarf vegna Helguvíkur

Hörður sagði að það tæki 1-1 1/2 ár að afla tilskyldra leyfa og afla fjármagns. „Það þarf allt að ganga upp samhliða, það getur enginn byrjað fyrr en allir eru búnir,“ sagði hann. Orkuna væri síðan hægt að afhenda eftir 5-6 ár.

Hörður sagði að við núverandi ástand á fjármálamörkuðum væri „feykilega erfitt verkefni“ að tryggja nauðsynlegt fjármagn. Nánast allt lánsfé þyrfti að koma frá útlöndum. Orkufyrirtækin þyrftu líklega um helming, um 125 milljarða.

Hörður benti á að fyrirtæki á Íslandi hefðu mjög takmarkaðan aðgang að lánsfé erlendis.  Landsvirkjun hefði fjármagnað framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun upp á 25 milljarða með erlendu láni en það hefði tekið um hálft ár að tryggja það lán. Síðan þá hefði ástandið á fjármálamörkuðum versnað og horfur væru óvissar næstu mánuðina. Önnur innlend orkufyrirtæki hefðu ekki sótt sér lánsfé erlendis undanfarið.

„Þetta er ekki eitthvað sem við getum leyst um næstu helgi. Það var það sem ég var að benda mönnum á,“ sagði Hörður.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert