Þarf styrk, trú og úthald

Steingrímur J. Sigfússon ávarpar landsfund VG eftir að hann var …
Steingrímur J. Sigfússon ávarpar landsfund VG eftir að hann var endurkjörinn formaður í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Steingrímur J. Sigfússon sagði, eftir að hann var endurkjörinn formaður VG í dag, að það væru vonbrigði þegar fólk treysti sér ekki til að halda áfram starfi í flokknum - og vísaði greinilega til þingmannanna Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur - en sagði að það þyrfti styrk, trú og úthald til þess að takast á við erfið verkefni í langan tíma.

Höfum sýnt mikinn styrk

„Ég tel að þessi flokkur okkar hafi í það heila tekið sýnt mikinn styrk og seiglu í því risavaxna verkefni sem við tókum að okkur fyrir tæpum þremur árum síðan. Þrátt fyrir alla ágjöf og erfiðleika þá erum við þó komin þangað sem við erum komin.  Auðvitað hafa þessir tímar reynt á allt og alla í íslensku samfélagi, það hefur ekki síður reynt mikið á sveitarstjórnarfólkið okkar, t.d. þau sem komu ný inn í sveitarstjórnir vorið 2010 og tóku þar á mörgum stöðum við ekkert sérstaklega glæsilegu búi. Það er ekki bara bundið við okkur í stjórn og þingflokki og forystu flokksins að þetta reyni á, það er bundið við okkur öll, ekki síður ykkur hin sem reynið að standa við bakið á okkur og verja framgöngu okkar, oft gagnvart mjög óvæginni umræðu,“ sagði Steingrímur þegar hann ávarpaði fundinn eftir að hann var endurkjörinn.

Vonbrigði

„Mér finnst þegar ég lít yfir þetta í heild sinni höfum við meira og minna sýnt mikinn styrk í þeim efnum. Það eru auðvitað alltaf vonbrigði þegar einhverjir treysta sér ekki til þess að halda samfylgdinni áfram, að halda áfram að vera með í okkar félagslega starfi, en þannig hlutir gerast og kannski enn oftar við svona aðstæður. Því auðvitað þarf styrk, trú og úthald til þess að takast á við svona verkefni misserum og árum saman. En það höfum við sýnt að uppistöðu til, og það skiptir miklu máli, og af sömu ástæðu hef ég tröllatrú á því að við höfum þann styrk sem til þarf til þess að ljúka verkefninu sem við tókum að okkur. Að við klárum þetta kjörtímabil með sóma þannig að fyrsta hreina vinstri stjórnin í sögu íslenskra flokkastjórnmála sitji út kjörtímabil, afsanni kenningarnar um að slíkt gerist helst aldrei, ljúki verkefninu við að koma Íslandi almennilega út úr kreppunni og leggi grunninn að áframhaldi samstarfi umhverfisverndarsinna og félagshyggjufólks í landinu. Ég hef tröllatrú á að þetta verkefni takist.“

Steingrímur hlaut yfirgnæfandi meirhluta atkvæða í formannskjöri.  Alls kusu 208 manns en 10 atkvæði voru auð. Steingrímur hlaut 152 atkvæði eða 73% gildra atkvæða. Margrét Pétursdóttir hlaut 31 atkvæði eða 15% og Þorvaldur Þorvaldsson hlaut 15 atkvæði eða 7%

Nokkuð afgerandi stuðningur

„Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið nokkuð afgerandi stuðning og sterkt umboð frá landsfundi. Sjálfur er ég reyndar þeirrar skoðunar að ég hafi ekki verið sérstaklega góður formaður fyrir þennan flokk, allavega ekki síðustu tæp þrjú ár, í þröngum skilningi þess orðs og þá á ég auðvitað við að annríki undanfarinna missera og önnur störf sem þið hafið vissulega líka falið mér  takmarka mjög tíma til þess að sinna hefðbundum skyldum formanns; að rækta samskipti við svæðafélög og grunneiningar í starfinu og vera í nægjanlega góðum tengslum við ykkur öll,“ sagði Steingrímur, en hét því að þegar um hægðist á öðrum vettvangi myndi hann láta flokkinn og flokksstarfið aftur njóta þess, enda þætti honum einhver skemmtilegasti hluti starfsins, að vera í góðum tengslum við flokksfélaga og byggðarlögin þar sem flokkurinn starfar.

„Ég tek þetta að mér með auðmjúkum huga eins og ég hef alltaf gert, reyni að gera mitt allra besta og mun ekki spara krafta mína meira en svo að ég druslist bara lifandi í gegnum þetta,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon.

Þorvaldur Þorvaldsson og Margrét Pétursdóttir sem buðu sig fram til …
Þorvaldur Þorvaldsson og Margrét Pétursdóttir sem buðu sig fram til formennsku í VG í dag, ásamt Steingrími J. Sigfússyni. mbl.is/Skapti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert