Gagnrýna grein sóknarprests

Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Ellefu prestar í þjóðkirkjunni hafa skrifað pistil á vefinn tru.is þar sem þeir mótmæla grein sr. Kristins Jens Sigurþórssonar sem telur ástæðu til að setja fyrirvara um minningar Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur um kynferðislegt ofbeldi í æsku.

„Síðastliðinn fimmtudag birtist grein í Fréttablaðinu eftir sr. Kristin Jens Sigurþórsson þar sem hann fjallar um reynslusögu Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur. Í greininni segir: „Það hlýtur að vekja spurningar með öllum þeim sem lesa um minningar Guðrúnar Ebbu hvernig hægt sé að gleyma áratugslangri kynferðismisnotkun og ofbeldi jafn rækilega og hún segist hafa gert.“ Sr. Kristinn Jens ræðir um fákunnáttu fagmanna sem leiði skjólstæðinga sína á villigötur og telur að eftir lestur um falskar minningar sé „erfitt að verjast þeirri hugsun að Guðrún Ebba sé eitt fórnarlambið í viðbót.“

Okkur sem þetta ritum þykir miður hvernig greinin er sett fram og nefnum þrenns konar ástæður. Þau sem gera upp minningar af kynferðisafbrotum og sifjaspellum upplifa mikla höfnun og sársauka þegar orð þeirra eru sögð marklaus og þau dregin í efa. Við teljum að veigamiklar ástæður þurfa að liggja til grundvallar því að vefengja slíkan vitnisburð.

Í öðru lagi teljum við að þær „hugsanir“ sem sr. Kristinn Jens fær vart varist um að sálfræðingurinn Ása Guðmundsdóttir hafi gert fórnarlamb úr skjólstæðingi sínum nálgist atvinnuróg. Að okkar mati þarf gild rök til að kasta rýrð á greiningar sálfræðings með þeim hætti sem hér er gert. Við álítum að umræða um sálfræðigreiningar þurfi að fara fram á faglegum nótum af til þess bærum sérfræðingum.

Í þriðja lagi er saga Guðrúnar Ebbu Ólafsdóttur sögð í skugga mistaka ýmissa kirkjunnar þjóna í kynferðisafbrotamálum tengdum nafni Ólafs Skúlasonar og sem eru tilgreind í skýrslu Rannsóknarnefndar Kirkjuþings. Þjóðkirkjan sem stofnun hefur misst traust sem hún áður naut. Því teljum við særandi að starfandi prestur í Þjóðkirkju Íslands skuli draga reynslu Guðrúnar Ebbu í efa í blaðagrein. Þjóðkirkjan þarf að endurvinna traust með faglegum vinnubrögðum og af nærgætni við það hugrakka fólk sem opinberar reynslu sína af kynferðisafbrotum. Við teljum grein starfsbróður okkar ekki gott veganesti á þeirri vegferð,“ segir í greininni.

Undir hana skrifa prestarnir Auður Inga Einarsdóttir, Bjarni Karlsson, Guðmundur Örn Jónsson, Guðrún Karlsdóttir, Hólmgrímur E. Bragason, Íris Kristjánsdóttir, Jóna Lovísa Jónsdóttir, Kristín Þórunn Tómasdóttir, Sigfinnur Þorleifsson, Sigríður Guðmarsdóttir og Svanhildur Blöndal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert