Spurði hvaða ESB Ísland ætti að ganga í

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, hóf umræður á Alþingi í morgun með því að fjalla um alvarlega stöðu efnahagsmála innan Evrópusambandsins. Sagði hann nú rætt um það innan ESB að breyta því í tveggja-hraða samband.

Beindi Sigmundur þeirri fyrirspurn til Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, hvort ekki væri tímabært að leggja umsókn Íslands til hliðar á meðan ESB kæmist að þeirri niðurstöðu hvers konar samband það vildi verða.

Össur svaraði því til að hann teldi ótímabært að slá neinu föstu um það hver þróunin yrði innan ESB og ítrekaði hann þá trú sína að þó evran ætti við mikla erfiðleika að etja um þessar mundir ætti hún eftir að verða sterkari á eftir þó hún yrði hugsanlega með einhverju öðru móti en áður.

Sigmundur kom aftur í pontu og spurði Össur hvaða ESB hann vildi að Ísland yrði hluti af. Þá lagði hann til að fyrst utanríkisráðherra byggi yfir slíkri trú á evrunni, meiri en nokkur hagfræðingur innan sambandsins, þá ætti hann að bjóða fram aðstoð sína og leysa vanda evrusvæðisins.

Össur svaraði á þá leið að hann vildi frekar bjóða fram aðstoð Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, til þeirra verka enda hefði hann staðið sig gríðarlega vel við að halda á efnahagsmálum Íslands. Yrði óskað eftir aðstoð Steingríms myndi hann taka vel í það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert