Óvíst hvenær kvótafrumvarp kemur

Jón Bjarnason, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Jón Bjarnason, Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, sagði á Alþingi í dag, að það væri hans vilji að mæla fyrir frumvarpi um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu fyrir jól en vanda þurfi til þeirrar vinnu og verið sé að vinna úr þeim umsögnum sem komu við frumvarpið í sumar. 

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Jón hvenær ætti að leggja nýtt frumvarp fram á Alþingi og hvort byggja ætti það á vinnu sáttanefndarinnar svonefndu eða á frumvarpinu, sem lagt var fram á Alþingi í vor og allflestir hefði verið ósáttir við.

Sagði Birkir, að Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, hefði á fundi efnahags- og viðskiptanefndar boðað, að ljúka ætti nýju kvótafrumvarpi fyrir áramót.

Jón sagði, að málið væri á forræði sjávarútvegsráðherra hvað sem efnahags- og viðskiptaráðherra hefði látið fara frá sér.

Hann sagði að verið væri að vinna úr umsögnum um frumvarpið sem hefðu verið á ýmsa lund og mörg atriði tíunduð, bæði þau sem þóttu mjög góð og þau sem þættu mega fara betur.

Birkir sagði að það væri áhyggjuefni að efnahags- og viðskiptaráðherra og sjávarútvegsráðherra virtust ekki ræða neitt saman um mótun efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert