Flytja til að forðast eignaupptöku

SA óttast afleiðingar hækkunar auðlegðarskatts.
SA óttast afleiðingar hækkunar auðlegðarskatts.

Samtök atvinnulífsins segja að framlenging auðlegðarskatts og hækkun hans hvetji efnamikla einstaklinga til þess að flytjast búferlum, eigi þeir þess kost, og víkja sér þannig undan skattinum. Þar með greiði þeir ekki heldur aðra skatta hér á landi. Aðrir sem ekki eiga þess kost að flytjast búferlum muni leita annarra leiða til að forðast eignaupptöku.

Einstaklingar sem eiga fastafjármuni eða eignarhluti í félögum geti lent í erfiðleikum með að greiða skattinn vegna erfiðrar lausafjárstöðu, þótt eignastaðan sé góð. Hætt er við því að skatturinn stuðli að því að æðstu stjórnendur fyrirtækja muni í vaxandi mæli verða staðsettir erlendis, að stærri hluti eignasafns Íslendinga leiti hagfelldara skattaumhverfis og að nýjar fjárfestingar verði á erlendri grundu.

Kemur þetta álit SA fram í umsögn samtakanna um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem efnahags- og skattanefnd Alþingis hefur nú til umfjöllunar.

Fram kemur að álagning fjármagnstekjuskatts á fjármagnstekjur sem ekki ná því að bera arð umfram verðbólgu sé í raun eignaupptaka. Svo hátti til um allar fjármagnstekjur sem eru undir þeirri 5% verðbólgu sem nú ríkir.

Auðlegðarskatturinn sé í eðli sínu mjög hátt viðbótarskattþrep í fjármagnstekjuskatti.

Í umsögninni er birt dæmi um einnar milljónar kr. eign umfram 150 milljóna króna markið. 5% ávöxtun hennar skili 50 þúsund kr.  Að teknu tilliti til verðbólgu, fjármagnstekjuskatts og auðlegðarskatts sé raunávöxtun neikvæð um 30 þúsund kr.

Ávöxtunin þurfi því að nema 8,75% til þess að nokkur raunávöxtun fáist, og 8,1% á eignum á bilinu 75 til 150 milljóna. „Það er því augljóst að þessir skattar ýta upp ávöxtunarkröfu fjárfestinga og slá alla fjárfestingarkosti út af borðinu sem ekki eru vel yfir þessum mörkum,“ segir í umsögn SA.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert