Vantar atvinnuuppbyggingu

Kristján L. Möller
Kristján L. Möller mbl.is

„Þessi afstaða Ögmundar Jónassonar kemur ekki á óvart,“ segir Kristján Möller, þingmaður Samfylkingar í Norðausturkjördæmi, og bætir við að engin málefnaleg rök séu fyrir ákvörðun innanríkisráðherra.

„Hann er búinn að tala allan tímann um þetta mál með slíkri lítilsvirðingu og þess vegna tel ég að hann sé vanhæfur til þess að fjalla um þetta mál,“ segir Kristján og bendir á að vart geti verið um hlutlaust mat að ræða af hálfu Ögmundar.

Kristján segir það einnig vera mjög alvarlegt að ekkert samráð átti sér stað um fyrirhuguð kaup Huangs Nubo á Grímsstöðum á Fjöllum innan ríkisstjórnarflokkanna en málefni tengd erlendum fjárfestingum eiga að heyra undir bæði iðnaðarráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra.

„Við höfum talað um að það þurfi erlenda fjárfestingu inn í landið og uppbyggingu, vegna þess að við ætlum ekki að halda áfram að skera niður og hækka skatta til að vinna okkur út úr þessari kreppu. Okkur vantar atvinnuuppbyggingu,“ segir Kristján og bætir við að ákvörðun Ögmundar sendi mjög slæm skilaboð til erlendra fjárfesta.

„Ég veit ekki hvort það veikir það endilega en þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar,“ segir Kristján Möller aðspurður hvort ákvörðun ráðherrans veiki núverandi ríkisstjórnarsamstarf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert