Hlýtur að segja af sér

Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

Ólína Þorvarðardóttir, alþingismaður Samfylkingarinnar, segir að Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra „hafi með síðustu tiltektum sínum stimplað sig sjálfur út úr ríkisstjórninni“.

Ólína segir þetta í pistli á heimasíðu sinni. Ólína telur að Jón sé að stefna í vitlausa átt með drögum að frumvarpi um stjórn fiskveiða.

„Þegar ráðherra í ríkisstjórn ákveður að hafa verkstjórnarvald forsætisráðherra að engu – ganga þvert á tilmæli samstarfsráðherra sinna í einu veigamesta stefnumáli stjórnarinnar – þá þarf sá hinn sami standa skil og ábyrgð gjörða sinna.

Ég sé ekki betur en að Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hafi með síðustu tiltektum sínum stimplað sig sjálfur út úr ríkisstjórninni.

Hann hefur að engu ábendingar samverkafólks varðandi breytingar á fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu frá í vor. Hann vinnur nýtt frumvarp í felum fyrir stjórnarflokkunum og öðru samverkafólki. Hann skipar „vinnuhóp“ án samráðs við nokkurn mann, og setur í þann hóp einstaklinga sem (sumir hverjir a.m.k.) hafa fram til þessa gengið erinda stjórnarandstöðuflokkanna. Hann neitar að upplýsa forsætisráðherra um það á hvaða leið hann er og virðir að vettugi þau sjónarmið sem talsmenn málaflokksins í stjórnarflokkunum hafa lagt fram. Síðan, þegar málið er (af skiljanlegum ástæðum) tekið úr hans höndum – og honum ætti að vera full ljóst að samstarfsaðilarnir á stjórnarheimilinu vilja önnur vinnubrögð og aðrar áherslur en þær sem hann hefur viðhaft – þá reynir hann að kúga forystu ríkisstjórnarinnar til hlýðni með því að birta frumvarpsdrögin á heimasíðu ráðuneytisins, eins og um sé að ræða stjórnarfrumvarp.

Sjávarútvegsráðherra hagar sér eins og hann sé einn í heiminum. Hann virðir stjórnarsáttmálann að vettugi, að ekki sé minnst á hans dyggustu samherja fram til þessa. Hann er á þessari stundu umboðslaus með öllu.

Jón Bjarnason stendur núna frammi fyrir sjálfum sér og sínum eigin verkum. Hann hefur sagt forystu ríkisstjórnarinnar og báðum stjórnarflokkunum stríð á hendur.

Það getur aðeins þýtt eitt. Ráðherra sem ekki gengur lengur erinda ríkisstjórnarinnar í einu veigamesta máli hennar, getur ekki litið á sig sem innanborðsmann þeirrar sömu stjórnar. Hann hlýtur að segja af sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert