Samþykktu að viðurkenna fullveldi Palestínu

Alþingi samþykkti í dag tillögu um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu. Tillagan var samþykkt mótatkvæðalaust, en sjálfstæðismenn sátu hjá við afgreiðslu málsins. Palestínskar konur voru á þingpöllunum og fylgdust með umræðunum.

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði að þetta væri söguleg stund. Palestínumenn hefðu lagt fram umsókn til Sameinuðu þjóðanna um fulla aðild að samtökunum og Íslendingar ættu að svara því kalli.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks sjálfstæðismanna, sagðist vona að sú ákvörðun sem Alþingi væri að taka, um skilyrðislausan stuðning við viðurkenningu Palestínu, yrði til góðs. Friður á þessu svæði væri markmið sem allir gætu stutt. Mörg nágrannaríki okkar fylgdu þeirri stefnu að skilyrði fyrir viðurkenningu Palestínu væri að tekist hefði að koma á friði á svæðinu.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist í dag vera stolt af því að vera þingmaður á Alþingi. Íslendingar ættu að standa með kúguðum þjóðum.

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Íslendingar hefðu átt að vera búnir að taka þessa ákvörðun fyrir löngu. Það hefði fyrst gerst þegar hrein vinstristjórn hefði verið við völd í landinu. Á þessum degi árið 1947 hefðu Sameinuðu þjóðirnar samþykkt að til yrðu tvö ríki gyðinga og araba í Palestínu.

Amal Tamimi, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sagði að þetta væri sögulegur dagur og hún sagðist stolt af því að taka þátt í að samþykkja tillögu um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Þetta væri stórt skerf.

Nokkrir þingmenn þökkuðu Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra fyrir frumkvæði hans í málinu. Eins þökkuðu þingmenn Amal Tamimi fyrir ræðu sem hún flutti um málið í gær.

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967. Jafnframt skorar Alþingi á Ísraelsmenn og Palestínumenn að leita sátta með friðarsamningum á grundvelli þjóðaréttar og ályktana Sameinuðu þjóðanna sem m.a. feli í sér gagnkvæma viðurkenningu Ísraelsríkis og Palestínuríkis.

Alþingi áréttar að PLO, Frelsissamtök Palestínu, eru hinn lögmæti fulltrúi allrar palestínsku þjóðarinnar og minnir jafnframt á rétt palestínsks flóttafólks til að snúa aftur til fyrri heimkynna í samræmi við margítrekaðar ályktanir Sameinuðu þjóðanna.

Alþingi krefst þess af deiluaðilum fyrir botni Miðjarðarhafs að þeir láti þegar í stað af öllum hernaði og ofbeldisverkum og virði mannréttindi og mannúðarlög,“ segir í ályktun sem samþykkt var á Alþingi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert