Sendi bloggara nafnlaus sms

Gunnlaugur Sigmundsson var lengi forstjóri Kögunar.
Gunnlaugur Sigmundsson var lengi forstjóri Kögunar.

Gunnlaugur Sigmundsson, fyrrverandi alþingismaður, segir í yfirlýsingu sem hann birtir í Fréttablaðinu í dag, að hann hafi sent Teiti Atlasyni bloggara fjölmörg nafnlaus sms þar sem hann villti á sér heimildir. Segist Gunnlaugur nú hafa sent Teiti bréf þar sem hann biðst afsökunar á þessu. Teitur hefur kært sms-sendingarnar til lögreglu.

Gunnlaugur rekur um þessar mundir meiðyrðamál á hendur Teiti fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna ummæla sem Teitur lét falla um Gunnlaug í bloggfærslu í febrúar.

Segir Gunnlaugur í yfirlýsingunni, að í kjölfar þess að Teiti var stefnt hafi hann færst allur í aukana í bloggskrifum um hann og heitið því að fjalla um málið á hverjum degi þar til yfir lyki. Gunnlaugur segir, að í ágúst sl. hafi umræðan lagst þungt á hann og þá sem standa honum nærri. Eins sé ógetið nafnlausra sms-skeyta og símtala sem honum bárust og höfðu að geyma svívirðingar og formælingar í hans garð.

„Í þessari stöðu greip ég til þess ráðs, sem ég iðrast, að senda Teiti í fjórgang nafnlaus sms-skeyti, þar sem ég villti á mér heimildir. Ég mun ekki hafa efni þeirra eftir hér, enda vanhugsuð af minni hálfu og aldrei ætlað að koma fyrir sjónir annarra en viðtakandans. Ummælin og aðferðin við framsetningu þeirra er óafsakanleg en verður að skoðast í framangreindu samhengi. Ég hef í dag sent Teiti Atlasyni bréf þar sem ég bið hann afsökunar,“ segir Gunnlaugur í yfirlýsingunni.

Hann segir, að sms-skeytasendingarnar hafi verið kærðar til lögreglu og lögmaður Teits hafi boðið honum að  fallið verði frá kærunni dragi Gunnlaugur málsókn sína á hendur Teiti til baka og greiði honum fullan málskostnað. Á það geti hann ekki fallist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert