Neftóbak á vitlausum stað

Samþykkt var með 34 atkvæðum gegn 21 á Alþingi í dag, að hækka tóbaksgjald á neftóbaki um 75% sem mun leiða til 30% hækkunar á útsöluverði á neftóbaki.

Um er að ræða hluta af frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum en atkvæði um einstakar greinar þess voru greidd á þinginu í dag. Atkvæði um neftóbaksgjald fóru að mestu eftir flokkslínum en einn stjórnarandstæðingur, Siv Friðleifsdóttir, greiddi atkvæði með hækkun tóbaksgjaldsins.

Siv sagði, að neftóbak væri bannað víðast hvar en hér á landi hefði verið talið, að slíkt bann væri óþarfi því neftóbak myndi verða úrelt og gömlu góðu neftóbakskarlarnir myndu falla að lokum eins og eðlilegt væri.

„En því miður hefði neftóbaksneysla stóraukist á Íslandi og það eru ungir drengir, sem setja neftóbakið á vitlausan stað, það er að segja í munninn. 20% ungra drengja nota neftóbak í dag. Þetta er mjög alvarlegt og tannlæknar hafa varað við þessu, þetta eykur mjög líkur á krabbameini í munni, hálsi og brisi og það er ábyrgðarhluti að leyfa þessa neyslu í landinu,“ sagði Siv. 

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði að neftóbaksnotkun hefði þrefaldast frá aldamótum eða úr 10 tonnum á ári í 27 tonn. Aukningin væri ekki hjá gömlum köllum til sveita eða köllum á Alþingi heldur hjá ungum drengjum, sem tækju neftóbak í vörina. Verðlagning á tóbaki hefði mest áhrif á tóbaksneyslu hjá ungmennum og því væri hækkun tóbaksgjaldsins skref í rétta átt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert