Landsdómsmálið er þingfest en ekki dómtekið

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Ómar

„Já það er nú fyrst til að taka að mér finnst að þetta sú nú nokkuð óeðlilegt inngrip í hlutleysi dómstóla í máli sem er í dómsferli og maður er nokkuð hugsi yfir því að það eigi að fara að fela saksóknara að fella niður þessa ákæru í máli sem hefur verið dómtekið,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, um þingsályktunartillögu Bjarna Benediktssonar um að falla frá málshöfðun gegn Geir H. Haarde, í viðtali við Morgunútvarp Rásar tvö í morgun.

„Þetta er nú kannski ekki rétt hugtakanotkun. Það er búið að þingfesta málið en það er ekki búið að dómtaka það,“ segir Andri Árnason, verjandi Geirs, og bætir við „með dómtöku er átt við það að þegar að málsaðilar eru búnir að tjá sig um málið fram og til baka og búnir að leggja fram öll gögn, þá er málið dómtekið.“

„Nei sko, það sem að kallað er að mál sé dómtekið, það er þegar búinn er málflutningur, aðalmeðferð og vitnaleiðslurnar, en það er bara búið að þingfesta máli og það eru búin að vera þinghöld í málinu náttúrlega,“ segir Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis.

Að sögn Sigríðar hefst aðalmeðferð í málinu þann 5. mars næstkomandi, en þá verða teknar skýrslur af ákærða og vitnum. Í framhaldinu af því flytja sóknar- og varnaraðilar ræður sína og að því loknu er málið dómtekið. Sigríður telur að málsmeðferðin gæti tekið nokkrar vikur og að málið gæti klárast í lok mars mánaðar 2012.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert