Færri greiða í séreignasparnað

Séreignasparnaður er hugsaður fyrir fólk sem komið er á lífeyri.
Séreignasparnaður er hugsaður fyrir fólk sem komið er á lífeyri.

Verkalýðsfélagið Efling hvetur fólk eindregið til að halda áfram að greiða í séreignarsparnað. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir að þeim sem greiði í séreignarsparnað hafi fækkað eftir hrun.

Um áramót taka gildi ný lög sem varða skattlagningu séreignarsparnaðar. Frádráttarbært viðbótariðgjald launamanns sem ráðstafað er í séreignarsparnað lækkar við þessa breytingu úr 4% í 2% af launum. Haldi launamaður áfram að greiða 4% framlag í viðbótarlífeyrissparnað mun það leiða til tvísköttunar á þessum hluta iðgjaldsins. Lögin gera ráð fyrir iðgjaldið lækki sjálfkrafa niður í 2% og því þarf fólk ekki að breyta samningum um sparnaðinn.

Sigurður segir að þessi ákvörðun stjórnvalda sé misráðin. Ljóst sé að þörfin fyrir viðbótarlífeyrissparnað sé jafn mikilvæg og áður. Sparnaðurinn hækki eftirlaunin og þörfin fyrir opinberan stuðning verði minni.

Þeir sem greiða 2% iðgjald í lífeyrissparnað fá 2% mótframlag frá atvinnurekenda og því er iðgjaldið samtals 4%. Ef fólk greiðir ekki þetta 2% iðgjald sparar atvinnurekandinn sér iðgjaldið. Ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur af þessum sparnaði eins og af hefðbundnum innlánsreikningum. 

Greiðslur í séreignarsparnað hafa aukist verulega á síðustu árum, en þetta sparnaðarform var tekið upp árið 1999. Sigurður segir að á allra síðustu árum hafi einstaklingum sem safna í séreignarsparnað hins vegar fækkað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert