Kúabúum heldur áfram að fækka

 Kúabúum á Íslandi heldur áfram að fækka, en fækkunin er um 3,8% á síðustu tveimur árum. Um 100 fjós eru hér á landi þar sem notast er við mjaltaþjóna, en þau skila líka mestum afurðum á hverja kú.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um fjósgerðir og mjaltatækni 2009-2011 sem sagt er frá á vef Landssambands kúabænda. Fjöldi fjósa í framleiðslu á Íslandi var í október 2011 659 en var 685 í október 2009, sem þýðir fækkun um 3,8% á tveimur árum sem er þó minni fækkun en árin tvö þar á undan þegar fjósum fækkaði um 4,9%.

Básafjós eru enn algengust á Íslandi, eða 63,6% allra fjósa, en þeim heldur þó áfram að fækka hlutfallslega. Hlutfall básafjósa með rörmjaltakerfum er hæst á starfssvæði Ráðgjafaþjónustu Húnaþings og Stranda (62,7%), en mest fækkun fjósa verður á starfssvæði Búnaðarsamtaka Vesturlands (9,4%).

Hlutfall lausagöngufjósa með mjaltaþjónum er hæst á starfssvæði Leiðbeiningarmiðstöðvarinnar í Skagafirði (32,1%) og 15,0% á landinu öllu.

Á Íslandi finnast enn allar grunngerðir aðferða við mjaltir sem þekktar eru í heiminum. Enn til eitt fjós á Íslandi þar sem kýrnar eru handmjólkaðar og enn eru til níu fjós þar sem kýrnar eru mjólkaðar með fötumjaltakerfum.

Sjálfvirkir aftakarar eru í 81,8% mjaltabásafjósa en einungis í 23,3% fjósa með rörmjaltakerfi. Kýr í lausagöngu eru að jafnaði afurðahærri en kýr í básafjósum. Lausagöngufjós með mjaltaþjónum eru afurðahæstu bú landsins að meðaltali, bæði ef horft er til heildarinnar en einnig ef eingöngu er horft til afurðahæstu búa landsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert