Actavis nær sáttum í Bandaríkjunum

mbl.is

Tvö dótturfyrirtæki íslenska lyfjaframleiðandans Actavis Group í Bandaríkjunum hafa samþykkt að greiða Texas-ríki 84 milljónir dollara og ná þannig sáttum við stjórnvöld í ríkinu í dómsmáli sem þau höfðu höfðað gegn fyrirtækjunum. Bloomberg-fréttaveitan segir frá þessu í dag.

Dómsmálið snerist um ásakanir stjórnvalda í Texas um að dótturfyrirtækin tvö, Actavis Mid-Atlantic LLC og Actavis Elizabeth LLC, hefðu krafið Texas-ríki um of háar greiðslur fyrir lyf með því að gefa upp rangt verð á þeim. Áður hafði kviðdómur í Austin í Texas komist að þeirri niðurstöðu í febrúar á þessu ári að dótturfyrirtækjunum bæri að greiða Texas-ríki 170 milljónir dollara.

Fram kemur í samningi Actavis og stjórnvalda í Texas um sátt í málinu að fyrirtækið neiti því að hafa gert nokkuð rangt en ákveðið hafi verið að ná sáttum til að forðast að málið drægist á langinn og hefði þar með í för með sér áframhaldandi óvissu, kostnað og óþægindi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert