Fá ekki styrk fyrr en uppgjöri er skilað

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Framsóknarflokkurinn fær ekki rúmlega sextíu milljóna króna árlegt framlag úr ríkissjóði fyrir árið 2012 – ekki fyrr en flokkurinn skilar ársreikningi fyrir árið 2010.

Flokkurinn er sá eini af þeim flokkum, þeirra sem eiga fulltrúa á alþingi á yfirstandandi kjörtímabili, sem hefur ekki skilað ársreikningi til Ríkisendurskoðunar en flokkunum er gert að skila ársreikningi ársins á undan fyrir 1. október ár hvert, samkvæmt frétt Fréttatímans sem kemur út á morgun.

Lárus Ögmundsson hjá Ríkisendurskoðun segir að það sé klárt í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra frá árinu 2006 að ekki sé hægt að ganga frá greiðslu til flokksins fyrr en ársreikningi sé skilað.

„Við lítum svo á að það sé óheimilt að borga þennan ríkisstyrk út fyrr en ársreikningur kemur enda stendur það skýrt í þriðju grein laganna að skilyrði til úthlutunar á fé úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka sé að fullnægjandi upplýsingaskyldu til ríkisendurskoðunar hafi verið gætt. Við sendum beiðni til fjársýslunnar um að þeir hefðu vaðið fyrir neðan sig vegna Framsóknarflokksins sem hefur ekki fullnægt upplýsingaskyldu sinni,“ segir Lárus, í samtali við Fréttatímann.

Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu eru styrkirnir, sem eru greiddir út til flokkanna í hlutfalli við fjölda þingmanna, til greiðslu nú í janúar og segir Þórhallur Arason, skrifstofustjóri fjárreiðu- og eignaskrifstofu ráðuneytisins, að miðað sé við að útgreiðslu sé lokið fyrir 20. janúar. Hann staðfestir jafnframt að ráðuneytinu hafi borist beiðni frá Ríkisendurskoðun um að ganga ekki frá greiðslum til flokkanna án samráðs við stofnunina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert