440 konur með PIP-sílikonpúða

reuters

Öllum konum sem fengu PIP-brjóstapúða á árunum 2000-2010 verður sent bréf á næstu dögum þar sem þeim er boðið að koma í ómskoðun á næstu þremur mánuðum til að ganga úr skugga um hvort brjóstapúðarnir leki.  Alls eru þetta 440 konur.

Ef konurnar eru sjúkratryggðar hér á landi verður skoðunin þeim að kostnaðarlausu. Reynist púðar lekir tekur ríkið þátt í kostnaði við að fjarlægja þá samkvæmt almennum reglum um greiðsluþátttöku hins opinbera vegna aðgerða.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra kynnti aðgerðaáætlun heilbrigðisyfirvalda vegna þessa máls á fundi ríkisstjórnar í dag. Velferðarráðuneytið áætlar, að heildarkostnaður ríkisins vegna ómskoðunar, sem Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands annast verði allt að sex milljónir króna. Þá er áætlað að nema þurfi brott púða hjá 4-8 konum að lágmarki eða allt að 30 konum að hámarki. Áætlaður kostnaður við aðgerðir vegna lekra brjóstapúða sem fallið gæti til á næstu árum er því áætlaður á bilinu 800 þúsund til 6 milljónir króna.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir, að brjóstafyllingar frá franska fyrirtækinu Poly Implant Prothese (PIP) hafi verið teknar af markaði í Evrópu í mars 2010 þar sem gæðum sílikonefnisins í þeim var talið áfátt. Skoðun leiddi í ljós að framleiðandi fyllinganna hafði notað í þær annað efni en það sem hann hafði áður fengið gæðavottað með CE-gæðamerkingu og varan því fölsuð og gölluð. Talið er að þetta eigi við um brjóstapúða sem PIP-fyrirtækið framleiddi og seldi allt frá árinu 2000.

Það var fyrst og fremst einn lýtalæknir hér á landi sem notaði þessa púða í aðgerðum við brjóstastækkanir á læknastofu sinni og hann flutti púðana sjálfur inn. Þeir hafa hins vegar ekki verið notaðir í aðgerðum sem framkvæmdar eru á sjúkrahúsum, t.d. vegna uppbyggingar brjósta í kjölfar krabbameinsmeðferðar.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld eru í beinum samskiptum við hlutaðeigandi yfirvöld og eftirlitsstofnanir í Evrópu og fylgjast grannt með þróun mála varðandi PIP-brjóstafyllingarnar hjá öðrum þjóðum. Áætlun sem velferðarráðuneytið kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í dag um aðgerðir íslenskra stjórnvalda verður endurskoðuð ef þörf krefur, komi fram nýjar upplýsingar um áhrif fyllinganna á heilsu kvennanna sem í hlut eiga.

Velferðarráðuneytið hefur ákveðið að afla lögfræðiálits, m.a. varðandi ábyrgð vegna innflutnings og dreifingar PIP-brjóstapúðanna og réttarstöðu hlutaðeigandi kvenna samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu. Ráðuneytið hefur leitað til ríkislögmanns við undirbúning málsins. Þegar lögfræðiálit liggur fyrir verður tekin ákvörðun um hvort ríkið geri kröfu um endurgreiðslu kostnaðar sem ríkið tekst á hendur vegna þessa máls.

Aðgerðaáætlun stjórnvalda vegna PIP-brjóstafyllinga

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert