Kallar eftir stöðuskýrslu um skatta

Frá skattafundinum í morgun.
Frá skattafundinum í morgun. mbl.is/Sigurgeir

Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra hefur óskað eftir stöðumati frá starfshópi sem hefur það hlutverk að endurskoða íslenska skattkerfið. Hún segist í framhaldinu taka ákvörðun um hvernig haldið verður á starfi hópsins næstu mánuði.

Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra, skipaði starfshópinn. Oddný sagðist vilja fá upplýsingar frá hópnum um starfið fram að þessu og þær tillögur sem hópurinn hefur verið að skoða. Ákvörðun um framhald verkefnisins verði tekin á næstu vikum.

Oddný sagði á Skattadegi Deloitte að ekki væri gert ráð fyrir fyrir frekari hækkun skatta á næstunni. Hún varði þær skattabreytingar sem þessi ríkisstjórn hefði staðið fyrir. Hún minnti á að ríkisstjórnin hefði líka lækkað skatta, t.d. vegna nýsköpunar, endurgreiðslu á virðisaukaskatti í byggingariðnaði og með upptöku frítekjumarks á fjármagnstekjur.

Oddný sagði að ríkisstjórnin hefði ekki átt annan kost en að styrkja tekjuöflun ríkissjóðs eftir að tekjur ríkisins lækkuðu mikið eftir hrun samhliða auknu atvinnuleysi og nýjum útgjaldaliðum vegna hrunsins. Ef þetta hefði ekki verið gert hefðu menn verið að fela komandi kynslóðum að takast á vaxandi skuldir ríkissjóðs.

Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra.
Oddný Harðardóttir fjármálaráðherra.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert