Segir iðnaðarsaltið ekki hættulegt

Salti mokað.
Salti mokað.

Ölgerðin segir, að iðnaðarsalt, sem fyrirtækið hefur flutt inn í mörg ár og dreift til matvælafyrirtækja, sé ekki hættulegt heilsu manna enda sé innihald þess í raun það sama og salt sem sé vottað til matvælaframleiðslu.

Að sögn Ölgerðarinnar er saltið frá Akzo Nobel, sem áður hét Dansk Salt. Ölgerðin og þar áður Danól og VB-umboðið hafi flutt saltið inn í áraraðir og dreift til matvælafyrirtækja. Í ljós hafi komið að þetta salt uppfylli ekki staðla, sem krafa sé gerð um til hráefnis í matvælaframleiðslu. Saltið sé ekki stimplað sem matvælasalt. Það sé hins vegar framleitt með sama hætti og matvælasalt.

„Saltið er ekki hættulegt heilsu manna, enda er innihald þess í raun það sama og matvælasalts. Þetta er fyrst og fremst spurning um vottaða staðla við framleiðsluna. Innihaldsmunur á þessum saltvörum er í raun enginn - og þótt tilgreint salt sé ekki stimplað sem matvælasalt tenst það allar alþjóðlegar viðmiðanir um innihald matvælasalts,“ segir á vef Ölgerðarinnar.

Ölgerðin segist hafa tekið fyrir dreifingu á þessu salti til fyrirtækja í matvælaiðnaði. Viðskiptavinum hafi verið sent bréf til að upplýsa þá um málið og til að tryggja enn frekar upplýsingagjöfina sé bréfunum fylgt eftir með símtali. Viðskiptavinum hafi verið boðið að skipta út sínum birgðum af salti.  

Vefur Ölgerðarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert