Vonbrigði með ríkisstjórnina

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir mbl.is/Golli

Stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna lýsir sárum vonbrigðum með að ríkisstjórn Íslands hafi ekki staðið við þau fyrirheit, sem gefin voru með yfirlýsingu hennar við gerð kjarasamninga hinn 5. maí 2011. Þetta kemur fram í tilkynningu frá landssambandinu.

„Vill stjórnin benda sérstaklega á að sú aðför sem gerð er að almennu lífeyrissjóðunum gengur þvert á gefin fyrirheit um jöfnun lífeyrisréttinda á íslenskum vinnumarkaði, sem ríkisstjórnin lofaði að hafist yrði handa um.

Þá mun það lengi í minnum haft að ríkisstjórn, sem kennir sig við norræna velferð, skuli svíkja gefin loforð um þá hækkun atvinnuleysisbóta og aðrar hækkanir almannatrygginga, sem um var samið.

Þrátt fyrir svikin loforð ríkisstjórnarinnar telur stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna ekki tímabært að segja upp núgildandi kjarasamningi. Byggist sú afstaða stjórnarinnar á því að í honum felast verðmæti fyrir verslunar- og skrifstofufólk sem m.a. munu koma til framkvæmda 1. febrúar næstkomandi.

Stjórn LÍV krefst þess af stjórnvöldum og atvinnurekendum að ráðist verði í fjárfestingar sem skili fólkinu í landinu fleiri störfum til framtíðar. Að nýta ekki þau tækifæri sem nú þegar eru til staðar til atvinnuuppbyggingar gerir ekkert annað en að viðhalda þeirri óvissu sem nú ríkir. Fólkið í landinu mun ekki láta sitt eftir liggja, standi ríkisvaldið og atvinnurekendur við sitt!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert